139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[14:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Því miður voru breytingartillögur okkar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar felldar áðan en um efni frumvarpsins vil ég segja að fulltrúar Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur komu á fund hv. viðskiptanefndar og báðu meiri hluta nefndarinnar um að fara ekki fram með þær tillögur sem við greiðum atkvæði um núna vegna þess sem hv. þm. Magnús Orri Schram nefndi, að yfir stendur stefnumörkun á vegum fyrirtækisins sem ekki er lokið. Þess var óskað bæði á fundum nefndarinnar og í umsögnum sem nefndinni bárust að beðið yrði með þær breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um þar til þeirri stefnumörkun yrði lokið.

Það blasir við að við þeim tilmælum verður ekki orðið af hálfu meiri hluta alþingismanna en við sjálfstæðismenn kjósum að hlýða á raddir þeirra (Forseti hringir.) sem eiga og stjórna þessu fyrirtæki og sitjum því hjá við þessa atkvæðagreiðslu.