139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[14:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi ræða hér í dag þá staðreynd að innan fárra ára verður mannfjölgun í heiminum orðin slík að stór hluti jarðarbúa mun búa við hungursneyð og/eða vannæringu. Ég vil líka ræða þá staðreynd að samhliða vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum hafa hnattrænar loftslags- og veðurfarslegar breytingar haft þau áhrif að sum landsvæði eiga við meiri örðugleika að stríða við að framleiða mat en áður. Við þetta tvennt bætist síðan síhækkandi orkuverð og þar með kostnaður við flutninga, auk þess sem fleiri og fleiri gera sér ljóst að því fylgja verulega miklir ókostir með tilliti til umhverfis að flytja matvæli langt yfir skammt. Jafnframt hefur verið tekið land undir lífdísilframleiðslu sem skilar hærra verði en hrávöruframleiðsla á heimsmarkaðsverði.

Forseti. Allt þetta hefur orðið til þess að heimsmarkaðsverð á hrávöru, fóðri og mat hefur snarhækkað á síðustu árum og umfjöllun erlendra greiningaraðila síðustu mánuðina, sérlega undir lok ársins 2010 og byrjun 2011, hefur fréttaflutningur verið mikill af framtíðarhorfum landbúnaðar í heiminum og matvælaframboði. Í stuttu máli sagt eru horfurnar þungar þótt ekki sé litið lengra en til ársins 2020. Þar má nefna að nú um stundir eru mestu þurrkar í Kína sem verið hafa, þeir munu valda uppskerubresti á hveiti og afleiðingin er hækkun á heimsmarkaðsverði. Í Bandaríkjunum var árið 2001 framleitt etanól úr 7% af maísökrum, 2010 voru 40% akra komnir undir etanólframleiðslu og í ár virtist stefna í að það þyrfti að taka 5 milljónir ekra undir maísræktina. Reyndin varð 2–3 milljónir ekra og þannig hækkaði markaðsverð á maís á heimsmarkaði. Nefna má óróleikann í Miðausturlöndum og það hefur líka orðið til þess að eftirspurn eftir mat hefur aukist og óstöðugleikinn orðið til þess að hækka verð.

Virðulegi forseti. Árið 2020 verða íbúar heimsins tæpir 8 milljarðar. Þá mun annað hvert nýfætt barn í Afríku líða fyrir vannæringu og hungur. Sömu tölur eru einn af hverjum fjórum í Asíu og einn af hverjum sjö í Suður- og hluta Mið-Ameríku. Ætlum við að byggja fæðuöryggi okkar og næg matvæli á að flytja mat frá þessum svæðum, frá þessu fólki sem þarf á öllu sínu og margfalt meiru að halda til að lifa yfir hungurmörkum?

Á Íslandi hefur alltaf hluti fólks og jafnvel stjórnmálaflokkar talað fyrir auknum innflutningi matvæla, m.a. vegna þess að þau fengjust á lágu verði á heimsmarkaði. Einnig hafa verið lögð fram rök til þess af sömu aðilum að önnur svæði séu betri til matvælaframleiðslu og þá stundum nefnd lönd Afríku og Suður-Ameríku. Sem betur fer hafa þessi sjónarmið ekki stjórnað för á Íslandi síðustu áratugi.

Hver er stefnan nú? Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég geri það meðal annars vegna þess að talsmenn aukins innflutnings horfa með mikilli eftirvæntingu til ESB-aðildar þar sem sannarlega verður, ef svo óheppilega fer að til aðildar komi, vegið að íslenskri matvælaframleiðslu eins og aðstæður eru nú.

Einnig er rétt að horfa til fæðuöryggis hvað stefnuna varðar. Nú um stundir framleiðum við bara um 50% af þeim hitaeiningum sem við þurfum. Af sérfræðingum í þjóðaröryggi er það talið í lægri kantinum, ef ekki allt of lágt. Nefna má dæmi að íslensk garðyrkja framleiðir innan við 50% af því grænmeti sem þjóðin neytir. Samt eru allir meðvitaðir um yfirburði í gæðum framleiðslunnar og möguleikum á að nýta raforku og hitaorku auk vatns og lofts til stóraukinnar framleiðslu á hollum matvælum. Hér flækist hver fyrir öðrum í stjórnkerfinu hvað varðar lækkun á dreifikostnaði raforku og kemur þar með í veg fyrir að nýta grænu stóriðjuna til matvælaframleiðslu, atvinnusköpunar og gjaldeyrissparnaðar.

Hver er stefna hæstv. ráðherra hvað þetta varðar?

Fleira má nefna. Ísland mun ásamt Norðurlöndum, Norður-Ameríku og að sumra mati Kína og hluta Austur-Afríku, þ.e. Eþíópíusvæðinu, fara betur út úr loftslags- og veðurfarsbreytingum en önnur svæði. Á Íslandi erum við auðug að þeim auðlindum sem flesta mun skorta, þ.e. mat, vatni og orku. Tækifæri okkar og horfur til lengri tíma eru því öfundsverð. Nefna má að tækifæri til að auka kornrækt og ef til vill fleiri tegundir, eins og hveiti og rúg, eru gríðarleg. Þá hefur verið til umræðu ræktun repju til lífdísilframleiðslu. Það sem hefur gleymst í þeirri umræðu er að samhliða olíunni er framleitt fóður til bæði manneldis og frekari matvælaframleiðslu. Möguleikarnir eru til staðar, bændur landsins eru tilbúnir til að yrkja jörðina — en hver er stefna stjórnvalda? Á að auka innlenda framleiðslu eða á að auka innflutning?

Virðulegi forseti. Í umræðu um íslenska matvælaframleiðslu og matvælaverð verður ekki hjá því komist að nefna að á bóluhagkerfisárunum með allt of sterka krónu var íslensk framleiðsla undir miklum þrýstingi. Útflutningsfyrirtækin drógu vart fram lífið og látlaust fóru fjölmiðlar fram með samanburð á matvælaverði hér og í stórborgum Evrópu. Nú er öldin önnur. Ég man varla eftir að fjölmiðlar hafi birt verðkannanir um samanburð á matvælaverði hér og erlendis. Útflutningur blómstrar, ekki síst í matvælaframleiðslu sjávarútvegsins, en einnig má nefna að útflutningur sauðfjárafurða nam um 3 milljörðum á síðasta ári í erlendum gjaldeyri og (Forseti hringir.) mjólkurafurðir skiluðu um 800 milljónum. Tækifæri eru til að auka þessa framleiðslu og nýta þannig enn betur fjárfestingar og afkastagetu bænda og landsins.

Hver er stefna stjórnvalda?