139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[14:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að vekja hér máls á íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaverði og fæðuöryggi. Ég get tekið undir margt, ég held allt, sem hv. þingmaður kom inn á.

Íslenskur landbúnaður stendur nú á miklum tímamótum. Í fyrsta sinn um áratugaskeið skila útflutningsmarkaðir okkar, t.d. með kjöt og mjólkurvörur, okkur sambærilegu verði og innanlandsmarkaðir. Nú er það alls ekki það mikilvægasta að leggja mikilvægi innlendrar fæðuframleiðslu á vogarskál markaðslögmála, málið er miklu stærra en svo. Þessi tímamót þýða engu að síður að við erum hér að kaupa íslensk matvæli á heimsmarkaðsverði, hvort sem við horfum þar til sjávarfangs eða landbúnaðarframleiðslu. Það er síðan alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það fer mun minna fyrir samanburði fjölmiðla á matvælaverði hér heima og í samkeppnislöndum okkar.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna segir að ríkisstjórnin muni standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Þar eru jafnframt fyrirheit um að efla lífræna ræktun, fullvinnslu afurða og markaðssókn innan lands sem utan. Eftir þessu hefur verið unnið í ráðuneytinu og það er ekki ofsagt að við höfum fengið hvatningu og stuðning við þessa stefnu af fréttum utan úr hinum stóra heimi, eins og hv. þingmaður rakti hér.

Ef tekið er mið af tölum frá Sameinuðu þjóðunum og spám alþjóðlegra stofnana er gert ráð fyrir að heimurinn allur standi frammi fyrir verulegum vanda við að brauðfæða alla íbúa árið 2020, ár sem algengt er nú að miða framtíðarspá við. Jarðarbúum mun fjölga um 10% á þessu svæði. Sum munu að einhverju leyti eflast og önnur munu þá eiga erfiðara vegna breytingar á loftslagi í heiminum.

Ef horft er til landa eins og hálendis Eþíópíu, Kína og hluta úr löndum Bandaríkjanna og Norður-Evrópu er ljóst að þar verða miklar breytingar. Það er afar mikilvægt og raunar skylda þessara landa að nýta þessi tækifæri til aukinnar framleiðslu matvæla. Kapphlaupið um ræktunarland er hafið í heiminum með kaupum hinna stóru og ríku á landspildum víðs vegar. Til dæmis hefur verið bent á kaup Stanleys Morgans á kornhéruðum í Úkraínu, það hefur verið bent á að Kínverjar og Suður-Kóreumenn hafa keypt upp stórar spildur í Afríku og olíuríkin hafa verið á hnotskógi eftir því sama. Í hverri viku berast okkur fréttir af umræðu um þennan yfirvofandi vanda frá stærstu þingum og samtökum heims, Bandaríkjunum, Evrópusambandinu, Rússlandi og vitaskuld alþjóðlegum stofnunum.

Ein ráðstefna af mörgum um þessi mál verður haldin í Háskóla Íslands nú í vikunni með Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna þar sem fjallað verður um fæðuöryggi, landbúnað og sérstaklega þátt kvenna í þeim efnum.

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er til staðar mikil þekking á þessum málaflokki, og vinna okkar við tillögugerð til Alþingis og nefndastörf innan ráðuneytisins taka mið af því. Ég nefni til dæmis í þessu sambandi mikilvægt frumvarp til nýrra jarðalaga sem er í vinnslu þar sem spornað er við því að ræktunarland sé tekið úr landbúnaðarnotkun og tillögur sem liggja fyrir um öruggari og heilbrigðari svínarækt hér á landi til að tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar hvað það varðar.

Þá skilaði starfshópur um kornrækt nýlega af sér skýrslu þar sem lagt er til að hagkvæmt sé að þrefalda þá kornframleiðslu sem veltir núna um hálfum milljarði króna og sparar þjóðarbúinu mikilvægan gjaldeyri. Frummælandi vék að fiskeldi og ég tek undir með hv. þingmanni um að þar eru gríðarleg sóknarfæri. Innan ráðuneytisins er unnið að þessum málum.

Virðulegi forseti. Ég hef einkum gert landbúnaðinn að umræðuefni en fæðuöryggi okkar snýr einnig að starfsskilyrðum og öryggi við sjávarútveg og þar berum við Íslendingar mikla ábyrgð. Eftir að við tókum sjálf við stjórn lands og fiskimiða hefur okkur orðið ágengt í verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna okkar. Vissulega má þar betur gera en sá árangur sem hefur náðst í þessum efnum er hvorki sjálfsagður né hefur tekist jafn vel til í ýmsum nágrannalöndum okkar, hvorki í austri né vestri. Um báðar þessar greinar, sjávarútveginn og landbúnaðinn, gildir að okkur er falið mikilvægt hlutverk sem við getum ekki hlaupið frá með því að gefa frá okkur sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og ábyrgð hennar í þessum efnum.

Við sem höfum talað hér fyrir því að efla og standa vörð um íslenskan landbúnað töluðum kannski fyrir daufum eyrum þegar þenslan stóð sem hæst (Forseti hringir.) í aðdraganda hrunsins en núna hefur málið heldur betur snúist við. Þann styrk og þann meðbyr eigum við að nýta okkur til að þróa og styrkja þessar atvinnugreinar áfram.