139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:06]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Rétt eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom að í máli sínu í upphafi hefur matvælaverð á heimsmarkaði hækkað gríðarlega á undanförnum árum. Ef ég man rétt og samkvæmt þeim gögnum sem ég hef hækkaði matvælaverð á heimsmarkaði í marsmánuði áttunda mánuðinn í röð, stanslaust. Það sem meira er, það er búist við því að sú hækkun haldi áfram inn í fyrirsjáanlega framtíð, t.d. að mati Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Verðvísitala þeirrar stofnunar hefur ekki verið hærri frá því að mælingar hófust en einmitt í dag. Það er auðvitað fyrirkvíðanlegt, rétt eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, hvaða gríðarlegu afleiðingar þetta hefur á íbúa jarðarinnar þar sem því er spáð að í Asíu einni muni sú hækkun sem þegar hefur orðið á matvælum og er fyrirsjáanleg ýta milljónum manna út í fullkomna fátækt, jafnvel tugum milljóna.

Hér er við mikinn vanda að etja sem við ráðum ekki ein við, því miður, eins og við þó gjarnan vildum. Matvælaverðið hefur þó að undanförnu, síðustu tvö árin eða svo, staðið nokkurn veginn í stað sem hlutfall af útgjöldum heimila. Ætli nýjustu tölur séu ekki að nálægt 14% af útgjöldum heimilanna fari til að kaupa mat og drykk. Það er athyglisvert að skoða neysluvísitölu matvöru, hvernig hún hefur breyst á undanförnum árum. Frá árinu 2008 hefur hún hækkað um 25%, heldur minna á síðasta ári, skiljanlega, en eins og hér hefur komið fram áður hefur innlenda varan hækkað þó skömminni minna en innfluttu vörurnar, skiljanlega að mörgu leyti þar sem það er dýrara að flytja inn en áður var.

Auðvitað er markmiðið að vera sjálfum okkur nóg um matvælaframleiðslu. Ég vísa til framleiðslu á fiski og þeirra aðgerða sem verður gripið (Forseti hringir.) til hvað það varðar, þ.e. að vinna meira heima af sjávarafurðum, hætta að flytja þær óunnar úr landi. Það er einn hluti af því sem við förum vonandi að fást við hérna á næstu dögum.