139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er bæði brýn og þörf. Það er alveg rétt að það þarf að bregðast við þeim loftslagsbreytingum sem eru ekki að verða heldur eru orðnar og munu breyta miklu um lífsskilyrði jarðarbúa, því miður mest þar sem mest er fátækt fyrir. Loftslagsbreytingarnar krefjast þess af okkur að við mörkum ekki bara stefnu um landbúnaðarmál til framtíðar heldur líka almennt um umhverfismál.

Það er munur á því hvort 8 milljarðar manna búa á jörðinni, af því að við eigum bara eina jörð, eða einn og hálfur eins og var fyrir rúmum 100 árum.

Ræktunarland er dýrt og það er af skornum skammti. Það er rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að það þarf að standa vörð um það í þessu sambandi. Af því að hér er verið að ræða matvælaverð skulum við líka hafa í huga að matvælaverð er í beinu sambandi við verð jarðefnaeldsneytis. Ef verð jarðefnaeldsneytis fer upp hækkar matvælaverð í heiminum. Það er það sem við höfum séð í kreppunni síðustu missirin.

Það er því mikilvægt að íslensk stjórnvöld stuðli að aukinni landbúnaðarframleiðslu sem er sjálfbær, lífræn og mætir kröfum neytenda. Kröfur neytenda eru um sjálfbæra og lífræna framleiðslu. Ef af inngöngu í Evrópusambandið verður mun það ekki breyta neinu þar um. Innflutningur matvæla sem er í samkeppni, t.d. hvíta kjötsins sem er verksmiðjuframleitt á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu, breytir engu um það. Okkur ber að lyfta undir þá framleiðslu (Forseti hringir.) sem borgar sig á Íslandi og er sjálfbær, neytendum og bændum í hag.