139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nú byrja á að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir málefnalega umræðu og að koma hér inn á fleiri þætti málsins en ég hafði tækifæri til í inngangi mínum. Það er auðvitað misjöfn sýn á ýmsa hluti. Það verður að viðurkennast að það hefur verið eftirtektarvert að í þinginu hefur ekki verið hægt að koma í gegn málum varðandi landbúnað vegna þess að fámennur hópur sem aðhyllist stóraukinn innflutning á kostnað innlendrar framleiðslu hefur trekk í trekk komið í veg fyrir að frumvörp er tengjast landbúnaði gangi eðlilega fram.

Ég hefði líka kosið að fá skýrari svör frá hæstv. ráðherra um plön, til að mynda um fiskeldi. Ef við gætum aukið það í 50 þús. tonn, sem er ekki stórkostlegt miðað við að Norðmenn framleiða milljón tonn í dag, gætum við skapað atvinnu og auk þess aukið gjaldeyristekjur um 30 milljarða.

Í vetur sem leið kom til Íslands norskur sérfræðingur í heimsviðskiptum með mat og matvælaframleiðslu. Skilaboð hans voru ekki einasta þau að hér væru tækifæri og þau sífellt hagkvæmari til að auka innlenda framleiðslu heldur væri það skylda okkar að brauðfæða eigin þjóð, framleiða eigin orku og flytja út hvað við gætum til að leggja okkar skerf til matvælaframleiðslu heimsins. Staðreyndirnar tala sínu máli eins og ég ræddi áðan, þetta mun þýða að það verður mikill þrýstingur á þau svæði sem geta framleitt mat, t.d. Evrópu, en þar eru umhverfismálin farin að þrýsta verulega á. Þetta þýðir líka að samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar verður enn þá betri og það styttist í að við getum orðið enn samkeppnishæfari en við erum í dag, jafnvel í heimsmarkaðsverði.

Hin hliðin er svo sú að til að tryggja fæðuöryggi kemur okkur ekki til með að veita af því sem við framleiðum vegna minnkandi framboðs á heimsmarkaði. Ef þessar ályktanir eru réttar er mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að standa vörð um matvælaframleiðslu hverju nafni sem hún nefnist og varast að drepa af okkur fyrirtæki og vaxtarsprota sem í augnablikinu líta ef til vill út (Forseti hringir.) fyrir að þurfa vernd. Landslagið breytist hratt og við þurfum að standa í lappirnar.