139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

íslensk matvælaframleiðsla og matvælagerð.

[15:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka sérstaklega góða og hvatningarfulla umræðu. Góður maður sagði að sjálfstæði þjóðar fælist í fæðuöryggi hennar. Það held ég að eigi svo sannarlega við um okkur Íslendinga, eins og alla aðra. Það er líka skylda okkar að varðveita með sjálfbærum hætti þá möguleika sem við höfum til matvælaframleiðslu og nýta þá líka eins og kostur er til eigin þarfa.

Hv. þingmaður kom inn á vaxandi flutningskostnað og orkukostnað í þeim efnum og það hafa fleiri gert. Það verður lúxus á næstu árum að eyða stórum hluta af orku í að flytja matvæli á milli landshluta sem hægt er að framleiða á viðkomandi heimaslóðum. Þess vegna er liðinn tími þeirrar stefnu og hugmyndafræði sem ríkti hér, sérstaklega fyrir nokkrum árum, um að það ætti bara að flytja inn mat ef hann fengist á spottprís erlendis.

Ég legg áherslu á það að við stöndum vörð um og eflum innlenda matvælaframleiðslu og matvælavinnslu. Horfum á öll störfin sem tengd eru störfum í kjötvinnslu, mjólkuriðnaði o.s.frv. Þetta er ekki alveg sjálfgefið en við verðum að standa vörð um þetta, tryggja umgjörðina, treysta þessa innviði og láta ekki glepjast af einhverjum gylliboðum um ódýrar vörur að utan á einhverjum spottprís. Nei, við verðum að standa vörð um okkar hlut, skyldu og ábyrgð í því að tryggja hér bæði holla og góða matvöru og fæðuöryggi þjóðarinnar. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)