139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

stuðningur ríkisins til starfsendurhæfingar.

587. mál
[15:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Réttur og geta fólks til vinnu er öllum gríðarlega mikilvægt. Rétturinn til að framfleyta sjálfum sér er í fyrirrúmi í mannlegu samfélagi. Nú blasir við í okkar ágæta samfélagi að atvinnulausum hefur fjölgað að mun frá því sem verið hefur í okkar ágæta samfélagi en eins hefur það gerst, frú forseti, að öryrkjum þessa lands hefur fjölgað að miklum mun, jafnvel meira en atvinnulausum að hlutfallstölu á undanliðnum árum. Þegar horft er í tölur Vinnumálastofnunar frá því á síðasta ári kemur í ljós að nýgengi öryrkja síðustu tíu ár hefur að jafnaði verið um 1.300 manns á ári. Ný störf sem myndast á hverju ári á Íslandi eru um 1.600 og menn geta séð í því ljósi hversu ör fjölgun öryrkja hefur verið hér á landi. Þess vegna er afskaplega brýnt að auka möguleika þeirra sem eiga með ýmsum hætti erfiðara en aðrir með að koma sér út á vinnumarkað.

Ég kem hér upp til að ræða þetta efni sem brennur mjög á fólki og félögum hringinn í kringum landið, þ.e. að auka aðgengi fólks sem á erfiðara en aðrir með að komast út á vinnumarkaðinn að margvíslegum störfum sem getur þá aukið tekjur þess og möguleika til að framfæra sér.

Þess vegna vil ég, frú forseti, eiga orðastað við hæstv. velferðarráðherra um þetta efni. Fréttir um erfiðleika starfsendurhæfingarstöðva úti á landi, og reyndar um allt land, hafa verið áberandi á undanliðnum árum. Fjárframlag til þessarar mikilvægu starfsemi er af skornum skammti. Ég tel að við eigum einna síst að skera niður í þessum viðkvæma málaflokki. Hann snýst um að koma fólki af örorku, af atvinnuleysisskrám og inn á vinnumarkaðinn með öllum tiltækum ráðum.

Það er mjög brýnt, frú forseti, að taka á þeirri sjálfkrafa og viðvarandi fjölgun sem orðið hefur í hópi öryrkja upp á síðkastið. 1.300 bætast við þar á hverju ári og hafa gert á síðustu tíu árum. Það er of mikið. Sumir hafa sagt að það sé óeðlileg fjölgun. Ég ætla ekki að leggja dóm á það hér, en legg hins vegar áherslu á það að með öllum tilteknum ráðum þurfi að koma fólki á vinnumarkaðinn. Þar vilja flestir vera og þar eru til leiðir eins og hjá starfsendurhæfingarmiðstöðvum til að koma fólki í hæft atvinnuástand ef svo kerfislega má komast að orði.

Ég beini því nokkrum spurningum til hæstv. velferðarráðherra í þessum efnum:

Hvernig er stuðningi ríkisins til starfsendurhæfingar á landinu háttað?

Hefur verið dregið úr þessum stuðningi á síðustu árum og ef svo er, hversu mikið (Forseti hringir.) og hve víða?

Eru í undirbúningi aðgerðir af hálfu ríkisins til að mæta fjárhagsvanda starfsendurhæfingar á Íslandi?

Þetta eru spurningar mínar til hæstv. ráðherra en ég vek athygli virðulegs (Forseti hringir.) forseta á að tíminn tifaði ekki hér fyrir framan mig. Ég vissi ekki hversu mikinn tíma ég hefði til að tala en lýk hér máli mínu.