139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

stuðningur ríkisins til starfsendurhæfingar.

587. mál
[15:28]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa mikilvægu umræðu og legg mikla áherslu á það hversu mikilvægt starf starfsendurhæfingarstöðvanna víða um landið er. Þeir einstaklingar sem einhverra hluta vegna hafa dottið út af vinnumarkaði vegna sjúkdóma eða annars fá þar einstaklingsþjálfun eða þjálfun í litlum hópum. Eins og ég segi skiptir það þetta fólk afar miklu máli sem og þessi tækifæri sem það fær í raun ekki annars staðar. Það sem háir starfseminni víða úti á landi er að þar eru miklar vegalengdir og menn hafa jafnvel orðið að búa til fleiri en eina starfsstöð og fleiri en tvær vegna þess að það fólk sem notfærir sér þessa þjónustu á oft erfitt með að fara erfiðar leiðir yfir marga fjallvegi. Fólkið hreinlega treystir sér ekki til ferðalaga. Mér finnst við þurfa að taka ákveðið tillit til þess. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við þurfum að hagræða en jafnframt vona ég svo sannarlega að ríkisvaldið, aðilar vinnumarkaðarins og heimamenn (Forseti hringir.) geti komið sér saman um leið til að viðhalda þessu góða starfi.