139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

stuðningur ríkisins til starfsendurhæfingar.

587. mál
[15:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli vera tekin hér upp. Ég ætla að einskorða mig við eina starfsendurhæfingarstöð, þ.e. Starfsendurhæfingu Austurlands. Eins og hér hefur komið fram höfum við þingmenn Norðausturkjördæmis fengið bréf frá þeim um að vá sé fyrir dyrum og erfiðleikar vegna þess að samningar við velferðarráðuneytið eru aðeins gerðir í tvo mánuði í senn. Eins og þau segja er það auðvitað óþolandi ástand sem ekki er hægt að búa við. Í febrúar sl. var öllum starfsmönnum sagt upp vegna óvissu um launagreiðslur.

Þess vegna langar mig að bæta við fyrirspurnina til hæstv. velferðarráðherra hvort honum sé kunnugt um ástandið hjá Starfsendurhæfingu Austurlands. Hvað hyggst ráðherra gera hvað varðar þetta erindi sem væntanlega hefur komið þaðan til ráðuneytisins alveg eins og það hefur komið til allra þingmanna Norðausturkjördæmis?