139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og vek athygli á því að vegirnir við sunnanverða Vestfirði eru sannkallað þjóðminjasafn íslenskrar vegagerðar og eru þjóðinni til skammar og hafa verið lengi.

Ég hef nýlega fengið svar við fyrirspurn minni um hættulegustu vegarkafla landsins. Í ljós kom að miðað við milljón ekna kílómetra, sem er alþjóðlegt viðmið bæði í flugi og á vegum, eru 20 hættulegustu vegarkaflar landsins úti á landi í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi en fimm á höfuðborgarsvæðinu. Níu þessara vegarkafla eru í Norðvesturkjördæmi og ekki síst á umræddu svæði. Aðeins er tekið tillit til eignaspjalla, en þegar tekið er tillit til slysa á fólki eru 25 hættulegustu vegarkaflar landsins miðað við milljón ekna kílómetra úti á landi og þess vegna er eðlilegt að taka tillit til þess í þeirri samgönguáætlun sem nú er undir.