139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna yfirvegaðri afstöðu og stefnumótun hæstv. innanríkisráðherra í þessu efni og tek undir með honum að allir þurfi að komast upp úr gömlu hjólförunum. Heimamenn hafa nánast verið lokaðir inni í einum ákveðnum kosti, forráðamenn bæði heima fyrir og meintir fulltrúar þeirra annars staðar hafa neitað öllum öðrum, og ekkert hefur gengið árum og áratugum saman og samgöngur verða sífellt verri vegna þess að ekki er veitt fé til að bæta það sem fyrir er. Mikil ábyrgð hvílir á þessum forsvarsmönnum.

Lausn á þeim vanda sem vissulega er fyrir hendi þarf að vera í samræmi við náttúru héraðsins og við vaxtarmöguleika þess samfélags sem þar er. Ég minni í því efni á þingsályktunartillögu okkar hv. þm. Róberts Marshalls um þjóðgarð við norðanverðan Breiðafjörð.