139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum búa í samgöngulegu fangelsi og hafa gert í áraraðir. Við úrskurð Hæstaréttar er enn þá meiri pattstaða hvað varðar framkvæmdir í Gufudalssveit ofan við Teigsskóg sem ég hef stutt og styð áfram sem ódýrustu og bestu leiðina til að ljúka vegagerð á þessu svæði. Aðrar leiðir eru allt of dýrar eða ekki færar.

Það var sorglegt hvernig þetta fór út af einu orði, þ.e. umferðaröryggi. Það kemur mér undarlega og spánskt fyrir sjónir því að ég veit af þeim fundum sem ég hélt meðan ég var samgönguráðherra um þetta að allir þingmenn Norðvesturkjördæmis studdu að hefja ferilinn varðandi Teigsskógarleiðina vegna þess, og það er athyglisvert, virðulegi forseti, að sú leið var komin á aðalskipulag Reykhólahrepps, staðfest af núverandi hæstv. umhverfisráðherra. (Forseti hringir.) Þess vegna var aðaláherslan lögð á þetta svæði með miklum peningum árið (Forseti hringir.) 2011 og 2012 í samgönguáætlun og vonandi tekst að eyða þeim sem allra fyrst í samgöngubætur á svæðinu því að ekki veitir af.