139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

uppbygging Vestfjarðavegar.

743. mál
[15:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og sömuleiðis þá umræðu sem hefur farið fram. Ég held að hæstv. ráðherra hafi orðað það ágætlega áðan þegar hann sagði að við værum á vissan hátt föst í hjólförum. Það erum við nefnilega varðandi vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum, ekki bara í óeiginlegri merkingu heldur bókstaflega, vegna þess að vegakerfið á þeim slóðum er þannig að menn komast ekki leiðar sinnar með eðlilegum hætti. Þessi vegagerð og vegir eru engum sæmandi.

Það var búið að finna og útvega nægilegt fjármagn í ársbyrjun 2007 til að hægt væri að fara í þessa framkvæmd. Þá var kveðinn upp úrskurður umhverfisráðherra og við bundum öll miklar vonir við það. En niðurstaða Hæstaréttar má segja að hafi slegið þetta mál út af borðinu í bili. Það er einfaldlega þannig að ef þetta er vilji okkar er auðvitað sú leið fær að Alþingi setji um það lög að fara með veginn út Þorskafjörðinn fyrir Gufufjörð og Djúpafjörð. Frumvarp þar um liggur fyrir, Alþingi getur tekið afstöðu til þess.

Hæstv. ráðherra sagði að sönnunarbyrðin lægi á þeim sem vildi ekki fara ódýrustu leiðina um hálsana. Það liggur fyrir að heimamenn eru andvígir því að fara leiðina um hálsana vegna þess að hún er ekki fullnægjandi. Því segi ég: Þeim sem ekki vilja fara lagasetningarleiðina ber skylda til að koma fram með jafngóðan kost sem tryggir eðlilegar samgöngur Vestur-Barðastrandarsýslu við aðalþjóðvegakerfi landsins. Þetta gengur ekki svona áfram. Við erum föst í þessum hjólförum og verðum að komast upp úr þeim. Það er á okkar valdi að höggva á hnútinn.

Núna háttar svo til að í haust verður lögð fram ný samgönguáætlun. Í henni hlýtur að birtast stefnumótun hæstv. ráðherra og samgönguyfirvalda varðandi vegagerð á þessu svæði. Ef það gerist ekki er það auðvitað skýr yfirlýsing um að ekkert muni gerast í þessum málum á næstu fjórum árum. (Forseti hringir.) Við getum ekki unað við það. Það væri gjörsamlega óþolandi. Það yrði eins og blaut tuska í andlit íbúa sunnanverðra Vestfjarða ef stefnumótunin birtist ekki þar. (Forseti hringir.)

Ég ætla að lokum að segja að það eru mikil vonbrigði að samráðsvettvangurinn sem boðaður var fyrir mánuði skuli ekki enn hafa verið myndaður. Ég skora á hæstv. ráðherra að ljúka þessu (Forseti hringir.) og a.m.k. mynda þennan vettvang áður en mánuður er liðinn frá því að gefin voru fyrirheit um hann.

(Forseti (SF): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)