139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[15:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef margoft rifjað hér upp var á ríkisstjórnarfundi á Suðurnesjum samþykkt að fela innanríkisráðherra að skoða vandlega kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðið á Miðnesheiði og að gerð yrði hagkvæmnisathugun á þeim kosti. Suðurnesjamenn fögnuðu mjög og fulltrúar allra sveitarfélaga á svæðinu og þingmenn kjördæmisins ályktuðu sérstaklega um kosti þess að Gæslan yrði staðsett á Suðurnesjum. Þingmenn kjördæmisins hafa líka lagt fram þingsályktunartillögu sem er nokkuð samhljóða því.

Það vakti hins vegar líka athygli og olli vonbrigðum að innanríkisráðherra virtist ekki vera jafnspenntur og við og þegar niðurstöður verktakans Deloitte lágu fyrir lagði ráðherrann megináherslu á að athugun Deloitte sýndi að flutningur stofnunarinnar til Suðurnesja væri ekki skynsamleg ráðstöfun til skamms tíma litið.

Þegar ég las þessi ummæli hæstv. innanríkisráðherra hugsaði ég með mér að þetta væri klassískt dæmi um það að stundum væri það mun áhugaverðara sem stjórnmálamenn segja ekki frekar en það sem þeir segja. Ég held einmitt að þessi áhersla á tímann, til skamms tíma, hafi sýnt það og sannað að það sem við höfum verið að tala um, þ.e. um það hversu góð staðsetning Landhelgisgæslunnar gæti orðið á Suðurnesjum, hafi endurspeglast nákvæmlega í þessum orðum, því að þrátt fyrir mikla vankanta á þessari úttekt sýndi hún nefnilega ótvírætt kosti þess að flytja Gæsluna á Miðnesheiðina og staðsetja hana þar til framtíðar.

Í úttektinni var staðfest að húsnæði Landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll er varla nógu stórt fyrir núverandi flugflota. Skrifstofan er í gámaeiningum á bílastæði sem hingað til hefur varla þótt samboðið föngum, eins og hæstv. innanríkisráðherra kannast örugglega við. Ekki er heldur tekið tillit til hugsanlegs sparnaðar af því að sameina varanlega á einn stað starfsemi Landhelgisgæslunnar og verkefni fyrrum Varnarmálastofnunar.

Það hefur líka komið ítrekað fram, frá starfsmönnum Gæslunnar, að fjárframlög til stofnunarinnar hafa dregist það mikið saman vegna niðurskurðar að hún hefur neyðst til að leigja frá sér skip, flugvélar og mannskap til verkefna erlendis vikum og mánuðum saman, sem hefur að sama skapi skert öryggi veg- og sjófarenda. Sá tækjabúnaður sem stofnunin býr yfir er að mati starfsmanna og raunar fyrrverandi ráðherra líka ekki eitthvað sem væri ásættanlegt til framtíðar til þess að við getum búið við það öryggi sem við viljum búa við.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra og raunar fá skýrari svör við ýmsum tímavíddum til skamms og langs tíma og allt þar á milli:

Hver er afstaða ráðherra til þess að starfsemi Landhelgisgæslunnar verði flutt á öryggissvæðið á Miðnesheiði í ljósi hagkvæmnisathugunar Deloitte?

Er ráðherrann tilbúinn til að halda áfram hagkvæmnisathugun og um leið að marka skýra stefnu um uppbyggingu og framtíðarstarfsemi Landhelgisgæslunnar?