139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er úr vöndu að ráða. Það fagna því allir þegar ákveðið er að setja á laggirnar hóp til að kanna kosti þess og galla að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja og þar með finna út hvaða tilkostnað það hefði í för með sér. Hvers vegna ráðumst við í þessa athugun? Jú, við ætlum væntanlega að láta niðurstöðurnar stýra því að einhverju leyti hvaða ákvörðun við tökum.

Skýrslan kemur út, hagkvæmnisathugunin liggur fyrir, og menn byrja að lesa í niðurstöðurnar. Í ljós kemur að tilkostnaður við flutning nemur um 700 millj. kr. og það sem meira er að rekstrarkostnaður Landhelgisgæslunnar mundi aukast árlega um annað eins. Fyrir þessari niðurstöðu eru færð rök.

Nú er það svo að Landhelgisgæslan sem önnur þjónusta á vegum hins opinbera býr við mjög knappan fjárhag. Eins og hv. þingmaður benti á hefur Landhelgisgæslan brugðið á það ráð, m.a. í fjáröflunarskyni, að leigja skip sín á fjarlægar slóðir til verkefna í Miðjarðarhafinu, Mexíkóflóa og annars staðar. Ég lít reyndar á þetta sem mjög góðan hlut, mér finnst þetta ekki vera slæmt, mér finnst þetta vera gott, þetta hefur ekki bara fært Landhelgisgæslunni auknar tekjur svo umtalsverðu munar heldur held ég að þetta sé líka gott fyrir mannskapinn. Ég hef heyrt það frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar almennt að þetta sé nokkuð sem starfsmenn þar fagni.

Í ljósi alls þessa sagði ég að til skamms tíma væri þetta ekki góður kostur eða skynsamlegt og er ég þá að horfa í fjárhæðina. Ég er að horfa í það líka og til þeirrar staðreyndar að skýlin á Reykjavíkurflugvelli hýsa ágætlega flugvélakost Landhelgisgæslunnar, tvær þyrlur og eina flugvél, og ég er að horfa til þess aukakostnaðar sem hlytist af þessum flutningum. Þá er farið að lesa í þetta sem einhver annarleg sjónarmið af minni hálfu eins og við heyrðum hér í fyrirspurn hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Ég hef engin annarleg sjónarmið í þessu efni. Ég vil gera það sem er heppilegast fyrir Landhelgisgæsluna og að sjálfsögðu horfði ég til þess möguleika og hef horft og geri enn sem hagstæðs og góðs kosts fyrir Suðurnesin líka. En þá verðum við líka að hafa fjármuni til ráðstöfunar og hafa tilfinningu fyrir því að við séum að gera eitthvað sem er gerlegt og sem er skynsamlegt. Ég ítreka að til skamms tíma litið tel ég það ekki vera skynsamlegt.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er allt annar hlutur. Við þyrftum til dæmis að hafa meira en tvær þyrlur, við þyrftum að hafa fjórar þyrlur, það er augljóst. Til lengri tíma litið hygg ég að þetta geti vel verið framtíðin, ég hygg það. Ég ætla að taka sem dæmi um möguleika á því að stíga skref inn í framtíðina hvað þetta snertir að flugskýlin á Keflavíkurflugvelli kalla á endurbætur eða skipti á rafkerfum (Gripið fram í: Og hvort sem er.) — og hvort sem er, segir hv. þingmaður, sem mundi þá skapa mönnum vinnu. Í stærsta og besta flugskýlinu er talið, samkvæmt þessari hagkvæmnisathugun, að það mundi kosta um 80 millj. kr. Það mundi veita fjölda rafvirkja og rafverktaka atvinnu og ég held að það væri ráðlegt að ráðast í þær breytingar. Það má vel vera að hægt sé að flytja Landhelgisgæsluna að hluta til, ég veit það ekki, og horfa þá til lengri tíma.

Það er þetta sem ég hef verið að orða þegar ég hef verið að leggja út af skýrslunni, þegar ég hef verið að horfa á pyngju ríkissjóðs og möguleika okkar, og það er slegið út af borðinu sem einhver annarleg sjónarmið af minni hálfu. (Forseti hringir.) Það er bara alrangt.

Ég er tilbúinn, hæstv. forseti, til að skoða þessi mál áfram til lengri tíma en svara því (Forseti hringir.) mjög afdráttarlaust að til skamms tíma litið tel ég þetta ekki hyggilegan kost.