139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

772. mál
[16:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram um Landhelgisgæsluna og staðsetningu hennar. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að hann sagði að allir hefðu fagnað þegar settir voru á laggirnar samráðshópar. Ég get nú ekki tekið undir það, ég held að ýmsir líti þannig á að þannig sé verið að tefja mál og þvæla þeim út og suður. Sex mánuðum síðar kom þessi skýrsla. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að verið sé að bera saman epli og appelsínur. Varðandi rekstrarkostnað Gæslunnar, ef hún yrði flutt suður eftir, hefur til dæmis verið bent á að staðið hafi til að greiða ökupeninga til starfsmanna. Ég vil spyrja ráðherrann hvort það standi til að gera það nú þegar, þ.e. að greiða þeim starfsmönnum sem búa á Suðurnesjum í dag ökustyrki til Reykjavíkur. Ég vil hvetja ráðherrann til að íhuga þetta mál aðeins betur.

Mér fannst yfirlýsing ráðherrans vera sú að í tíð þessarar ríkisstjórnar yrði Landhelgisgæslan ekki flutt til Suðurnesja.