139. löggjafarþing — 122. fundur,  11. maí 2011.

Schengen-samstarfið.

779. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið sem hljóðar þannig:

1. Hver er stefna ráðherra hvað varðar Schengen-samstarfið?

2. Stendur til að endurskoða aðild Íslands að því?

3. Hefur farið fram endurskoðun í ljósi tíu ára reynslu?

Schengen-samstarfið hófst í marsmánuði 2001.

Ég spurði fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, sambærilegra spurninga í þinginu árið 2009. Þá kom m.a. fram á skriflegri fyrirspurn að Schengen-samstarfið gengi út á það að frelsi ríkisborgara EES-ríkjanna og aðstandenda þeirra til vinnu og dvalar hér á landi væri réttur grundvallaður á EES-samningnum en ekki Schengen-samstarfinu.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með Bretland, Írland og Kýpur sem eru innan Evrópusambandsins en eru ekki í Schengen?

Það kom líka fram í svari ráðherra þá að gallarnir á þessu kerfi væru helst þeir að þar væri átt við afnám landamæraeftirlits á innri landamærum Schengen-svæðisins sem gæti gert afbrotamönnum hægara um vik við háttsemi sína og undankomu til annarra landa. Sérgreindur kostnaður vegna þessa frá upphafi væri kominn í milljarð og framtíðarrekstur á ári héðan í frá væri um 150 milljónir. Við það má bæta, ef menn vilja tengja það Schengen, að talið er að kostnaður við fanga með erlent ríkisfang sem sitja hér í fangelsi sé um milljarður á ári, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið.

Ef við mundum hins vegar afnema Schengen yrði vegabréfaeftirlitskostnaður umtalsverður, líklega um 100 milljónir á ári. Það mundu sparast 50 milljónir á ári við að ganga úr Schengen og taka upp vegabréfaeftirlit. Það kom fram í svari hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið núverandi innanríkisráðherra í ljósi tíu ára afmælis Schengen-samstarfsins í ljósi þess að það kom fram í fréttum nýlega að norska lögreglan hefði áhuga á að endurskoða Schengen vegna vandræða sem væru þar. Eins hafa íslensk lögreglufélög, til að mynda Lögreglufélag Vestfjarða, fyrir allnokkru skorað á ríkisstjórn og Alþingi að endurskoða þetta.

Þá má að lokum minnast á tvær greinar sem fyrrverandi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skrifar þar sem hann segir að Schengen-samstarfið hefði verið misráðið og falsrök notuð sem tálbeita. Þau hafi verið þess efnis að menn þyrftu ekki að nota vegabréf en síðan sé sífellt krafist vegabréfa hvert sem við förum, að við eigum að ganga með þessi persónuskilríki .

Svo segir hann í seinni grein sinni að æ fleiri átti sig á að eftirlitslaus umferð á Schengen-svæðinu sé himnasending fyrir glæpagengi sem hagnast á eiturlyfjasmygli, þjófnaði og mansali. Ég vil því spyrja ráðherra hver sé stefna hans og ríkisstjórnarinnar í þessu máli.