139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

niðurstaða kærunefndar jafnréttismála og rýnihóps.

[10:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að hætta öllum undanbrögðum í þessu máli. Sú tilraun að setja á laggirnar þennan rýnihóp var auðvitað dæmi um undanbrögð. Hæstv. forsætisráðherra stendur frammi fyrir mjög einföldum valkostum sem kunna að vera henni þungbærir en eru einfaldir engu að síður. Það er bara þannig að hæstv. forsætisráðherra þarf að svara þessu skýrt og skorinort: Fellst hún á niðurstöðu kærunefndarinnar? Telur hæstv. forsætisráðherra að lög hafi verið brotin? Ef lög hafa verið brotin er auðvitað eðlilegt að greiða skaðabætur, en hæstv. forsætisráðherra ýjar að því að ef til vill hafi lög ekki verið brotin en engu að síður eigi að greiða skaðabætur úr ríkissjóði.

Það er augljóst mál að hæstv. forsætisráðherra er komin út á mjög hálar brautir og ég hvet hæstv. forsætisráðherra til þess einfaldlega að hlíta lögunum og hætta þessum undanbrögðum.