139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

brottfelling fyrstu laga um Icesave.

[10:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á fundi utanríkismálanefndar fyrir stuttu spurði ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann eða ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að fella lög nr. 96/2009, svokölluð Icesave 1 lög, úr gildi. Hafði ég sjálft kynnt frumvarp um slíkt fyrir þingmönnum og var því dreift í upphafi síðustu viku. Bauðst ég til að draga frumvarpið til baka ef ríkisstjórnin vildi flytja málið. Voru dræmar undirtektir við þessu og nú hefur málinu verið dreift sem þingmannamáli og allir þingmenn Framsóknarflokksins eru meðflutningsmenn.

Í 1. gr. laganna er fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, heimilað að veita ríkisábyrgð á kröfum Breta og Hollendinga. Í 2. mgr. 1. gr. laganna er ríkisábyrgðin skilyrt að því leyti að bresk og hollensk stjórnvöld fallist á þá fyrirvara sem settir voru í lögin og þeir mundu fallast á. Bretum og Hollendingum hugnuðust ekki fyrirvararnir og fór málið í samningaviðræðu sem lauk með Icesave 2 og síðar Icesave 3. Eins og alþjóð veit voru þeir samningar báðir felldir í þjóðaratkvæðagreiðslum og þar með sú staðreynd að ákvæði laga nr. 13/2011, Icesave 3, um að fella lög 96/2009, Icesave 1 úr gildi, tók því ekki gildi þar sem lögin voru felld af þjóðinni. Fyrir vikið er sú staða uppi að lög nr. 96/2009 sem stóð til að fella brott eru enn í fullu gildi. Því er raunhæf sú staða að Bretar og Hollendingar geta hæglega beitt fyrir sér í dómsmáli forsendubresti þar sem allar samningsumleitanir með nýrri lagasetningu hafa farið út um þúfur með tilstilli þjóðarinnar. Vanefndatilvik samninganna eru ótal mörg og um samningana gilda ensk lög og ágreiningsefni lúta lögsögu enskra dómstóla.

Því spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann ætli ásamt ríkisstjórninni allri að beita sér fyrir því að fella lögin úr gildi til að forða þessari vá sem vakir yfir þjóðinni. Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að því: Hafa Bretar og Hollendingar gert kröfu (Forseti hringir.) á ríkisstjórnina um að lögin haldi gildi sínu?