139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

brottfelling fyrstu laga um Icesave.

[10:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir það góða samstarf sem við áttum í utanríkismálanefnd við umfjöllun um það svar sem við sendum til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna Icesave-málsins.

Að því er varðar löggjöfina sem spurt er um er hún á forræði fjármálaráðherra en hann er ekki hér í dag. Ég tel þó fullvíst að engar kröfur séu af hálfu Breta og Hollendinga um að þessum lögum sé haldið í gildi og fullkomlega eðlilegt að horfa til þess að fella þau úr gildi í ljósi aðstæðna. Við höfum aldrei fengið neinar kröfur frá Bretum eða Hollendingum, innheimtubréf eða kröfur vegna þessa máls. Það er það sérkennilega í málinu öllu saman. Það eina sem íslensk stjórnvöld hafa fengið er þrýstingur í formi alls konar hótana og tafa á fyrirgreiðslu til Íslands í upphafi efnahagsáætlunarinnar en við höfum aldrei fengið formlegt kröfubréf þar sem óskað er eftir að við stöndum skil á einhverju. Það er það undarlega við þetta mál allt saman. Málsvörn okkar byggir á þeirri einföldu staðreynd að engin krafa hafi til orðið og það er auðvitað grundvallarforsenda í málinu.

Ég held að það sé rétt að fara yfir frumvarp hv. þingmanns í nefnd og tel eðlilegt að þingið fari yfir það, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að fella (Forseti hringir.) lögin frá því haustið 2009 úr gildi.