139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

launagreiðslur til stjórnenda banka og skilanefnda.

[10:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þann 14. mars sl. var dreift fyrirspurn frá mér til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna. Tilgangur þeirrar fyrirspurnar var að reyna að draga fram í dagsljósið þau kjör sem stjórnendur banka, bæði fyrir hrun og hinna nýju banka, hafa búið við, þá er verið að talað um æðstu stjórnendur, og sömuleiðis þá sem sitja í skilanefndum og slitastjórnum bankanna.

Í gær var dreift svari frá hæstv. ráðherra, tveimur mánuðum eftir að fyrirspurnin var lögð fram en samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar tíu daga til að svara fyrirspurnum. Svar hæstv. ráðherra er það að hann hafi ekki tök á að svara þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hann. Þetta er að mínu mati mjög ámælisvert, bæði það að ráðherrann skuli taka sér tvo mánuði til að komast að þeirri niðurstöðu og eins er hitt algjörlega óviðunandi að ekki skuli fást svör við þessum spurningum, vegna þess að í þessum tíu lína texta sem barst frá ráðuneytinu kemur þó fram að það sé ekki verið að fara fram á upplýsingar sem leynt skuli fara eðli máls samkvæmt heldur séu þessar upplýsingar til, á víð og dreif að vísu, en eigi að vera aðgengilegar.

Þess vegna hlýt ég að ítreka þá spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hvers vegna getur ráðuneyti hans ekki á tveimur mánuðum tekið saman þær upplýsingar sem beðið er um? Ég er sannfærður um að mjög margir í samfélaginu vilja fá vitneskju um launakjör til þessara aðila og sjá hvernig þau hafa þróast bæði í bönkunum áður en hrunið varð og síðan eftir hrun. Ég botna ekkert í þessu svari hæstv. ráðherra, ég tel það algjörlega óviðunandi og vil fá svör frá honum hvort hann hyggist bæta úr og koma með raunveruleg svör við þessum spurningum.