139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

launagreiðslur til stjórnenda banka og skilanefnda.

[10:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ákvörðun Alþingis og fjárveitingavalds Alþingis hvar það vill láta upplýsingaöflunarvinnu fyrir alþingismenn liggja. Er það hjá upplýsingaþjónustu Alþingis eða hjá ráðuneytum? Hvorki efnahags- og viðskiptaráðuneytið né Fjármálaeftirlitið er með starfsfólk sem situr iðjulaust og bíður eftir því að vinna við samantektir gagna, sem eru ekki aðgengilegar almenningi, fyrir alþingismenn, það er ekki þannig.

Hér á Alþingi þarf venjulega að samþykkja sérstaklega t.d. skýrslubeiðnir. Hér er í reynd ekki um annað að ræða af hálfu hv. þingmanns en skýrslubeiðni. Verið er að biðja um sérstaka rannsókn á hlutum sem eru á almannavitorði úr fortíðinni. Því miður höfum við ekki mannafla til þess að sinna slíkum verkefnum. Ef Alþingi vill að ráðuneyti sinni slíkum verkefnum fyrir alþingismenn verður Alþingi að sjá okkur fyrir fjárveitingum til þess eða ella efla sína eigin upplýsingaþjónustu.