139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjárfestingar og ávöxtun lífeyrissjóðanna.

[10:57]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að hæstv. ráðherra er sammála mér um það að ekki séu ýkja mörg fjárfestingartækifæri í hagkerfi þar sem eru allt of margar krónur að elta sömu eignirnar.

Það sem ég tel, virðulegi forseti, að sé nauðsynlegt að gerist er að við minnkum stærð lífeyrissjóðanna í stað þess að stækka þá eins og gert er ráð fyrir m.a. í nýgerðum kjarasamningum. Við eigum ekki að vera að hvetja til þess að eignir séu fluttar heim þegar lífeyrissjóðirnir geta ekki fjárfest þessar eignir í arðbærum fjárfestingartækifærum og þá ekki heldur að lofa auknu framlagi ríkisins inn í lífeyrissjóðakerfið eða að gefa vilyrði um hækkun iðgjalda.

Virðulegi forseti. Það sem (Forseti hringir.) þarf að gera er að minnka stærð sjóðanna með afnámi verðtryggingar og skatti á inngreiðslur í sjóðina jafnframt því sem við þurfum að huga að því að taka upp nýjan gjaldmiðil (Forseti hringir.) annan en evruna þar sem hún er ekki pólitískur möguleiki. (Gripið fram í.)