139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna og hans einlæga áhuga á þessu þjóðþrifamáli. Skuldaúrvinnsla fyrirtækja er eitthvert mikilvægasta efnahagsverkefni okkar nú og við nálgumst það verkefni af þeirri alvöru sem því sæmir í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu. Sem dæmi má nefna að við eigum nú hálfsmánaðarlega fundi með Fjármálaeftirlitinu um framgang þessa máls og eftirlit með framgangi á skuldaúrvinnslunni í bönkunum. Við fundum líka með bönkunum sjálfum. Ég átti fund í gær með bankastjórum tveggja stærstu bankanna svo dæmi sé tekið um nákvæmlega þetta mál.

Hvað varðar framganginn á Beinu brautinni eru samkvæmt nýlegu yfirliti frá fjórum stærstu bönkunum 6 þús. fyrirtæki með skuldir á bilinu 10–1.000 milljónir sem voru viðmiðin sem Beina brautin nær til. Þessa tala er í samræmi við upphaflegar áætlanir, eiginlega satt að segja alveg ótrúlega mikið í samræmi við þær, því að þá giskuðum við á að 5–7 þús. fyrirtæki væru innan þessara skuldsetningarmarka.

Staða þessara fyrirtækja að mati þessara banka er heldur betri en búist var við í fyrrahaust þegar búið var að fara í mat á þeim en þá hafði lítil athugun farið fram á stöðu fyrirtækjanna.

Það er líka rétt að muna að margar fjármálastofnanir bjóða jafnvel stærri fyrirtækjum þessar lausnir og vinna á grundvelli þeirra viðmiða sem Beina brautin byggir á, jafnvel fyrir stærri fyrirtæki enda eru þetta skynsamleg viðmið fyrir fyrirtæki í skuldavanda. Fjármálafyrirtækin bregðast við greiðslu á skuldavanda fyrirtækjanna, ekki bara með Beinu brautinni heldur líka með úrræðum á borð við lengingu lána eða sölu eigna án þess að til afskrifta komi og síðan einnig með lækkun eftirstöðva gengistryggðra lána. Þegar horft er á talnalegar upplýsingar sjáum við núna að af þessum um 6 þús. fyrirtækjum sem þarna falla undir teljast tæp 2 þús. ekki í greiðsluvanda. Fyrirtæki í skuldagreiðsluvanda eru talin um 4 þús. Þar af er gert ráð fyrir að vandi um 1 þús. fyrirtækja leysist með Beinu brautinni, um 670 til viðbótar fái úrlausn með lengingu í lánum og 280 þar til viðbótar fái úrlausn með 25% lækkun á höfuðstól. Rúmlega 500 fyrirtæki eru enn í skoðun og úrlausn þeirra ekki ákveðin. Þar geta komið upp ýmis álitamál, t.d. er varða útgreiðslur úr félögunum þar sem er kannski togstreita milli bankans og eigenda þar sem bankanum finnst ekki sjálfgefið að mæta fyrirtækjunum á forsendum Beinu brautarinnar ef eigandi hefur til dæmis greitt sér arð á síðustu árum. Það geta auðvitað líka verið flóknari mál sem þurfa frekari úrvinnslu við og sértækari lausnir og svo er gert ráð fyrir að rúmlega 1.500 af þessum fyrirtækjum séu ekki með rekstrarhæfar forsendur og fari beint í þrot.

Eins og staðan er núna eru að minnsta kost tveir af stóru bönkunum fjórum búnir að staðfesta við mig, nú síðast í gær, að þeir muni ná því markmiði að senda tilboð til allra fyrirtækjanna innan rammans, þ.e. fyrir lok þessa mánaðar. Dagsetningin 1. júní stenst að minnsta kosti í tilvikum tveggja af stærstu bönkunum. Vonandi tekst það hjá öllum. Ég á eftir að fara hringinn og ræða við þá alla. Það verður gert fyrir vikulok. Í öllu falli eiga ekki að þurfa að verða verulegar tafir á því að fyrirtækin fái þessi tilboð. Skuldaúrvinnslan tekur síðan tíma í framhaldi, skjalavinnsla og annað slíkt. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að forðast ofskuldsetningu fyrirtækjanna. Við verðum líka að sýna því skilning að bankarnir hafi ákveðið svigrúm til að semja við eigendur fyrirtækjanna. Kosturinn við aðferðafræði Beinu brautarinnar er að þar eru lágmörkuð ágreiningsefnin sem kostur er. Það er auðveldara að komast að einfaldri niðurstöðu um ágreiningsþættina og hún skapar möguleika til að afgreiða hratt og vel erfið og flókin skuldamál. Það er stóri kosturinn við aðferðafræðina og mér sýnist að þessar tölur bendi til þess að hún nái þeim tilgangi sínum.