139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stöðu minni og meðalstórra fyrirtækja. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu því að oft hefur verið talað um að þessi fyrirtæki séu öxull atvinnulífsins við hliðina á hinum stærri.

Ég kalla hér eftir forgangsröðun hjá ríkisstjórninni. Nú hafa þær björgunaraðgerðir sem hún hefur beitt sér fyrir staðið í bráðum full þrjú ár og á meðan eykst atvinnuleysi og útflutningsvegur þjóðarinnar er orðinn útflutningur á fólki. Þetta er sorgleg staðreynd sem við þurfum að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd því að við ræðum ekki málefni atvinnulífsins öðruvísi en að taka tillit til þeirra aðila sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði.

Skuldsetningin er gríðarleg, ég veit það. Mörg af þessum fyrirtækjum eru með ólögleg erlend lán og önnur eru með í bland himinhá verðtryggingarlán sem hafa hækkað og forsendur farnar þar jafnt fyrir þeim lánum eins og hinum ólöglegu og gengistryggðu lánum. Við megum ekki gleyma þeim fyrirtækjum sem ganga vel og eru í rekstri því að þrátt fyrir að vandinn sé mikill hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum varðandi skuldir eru líka fyrirtæki sem skapa störf og skila skatttekjum til ríkissjóðs en standa mörg hver ekki nægilega vel. Því verður að hlúa að því sem er nú þegar í rekstri og hér verður einnig að huga að vaxtarbroddum og nýsköpunarfyrirtækjum.

Það er undarlegt að í þessum málaflokki, eins og um málefni heimilanna, eru það sífellt þeir stóru, þeir sem skulda mest, sem fá hæstu afskriftirnar. Á meðan skilaði bankakerfið tæpum 100 milljarða hagnaði á síðasta ári. Hvers vegna er ekki hægt að ganga hraðar í málin og hvers vegna er ekki hægt að gera þessar úrbætur? Ætlar ríkisstjórnin að koma atvinnulífinu í gang hér á landi eða sitja áfram með hendur í skauti?