139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, fyrir að hefja þessa umræðu. Eins og hann hefur áður lýst er það þannig að mörg okkar sem hér störfum og margir í atvinnulífinu bundu miklar vonir við Beinu brautina sem úrlausn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Því miður eru þær vonir að verða að engu og því hefur verið lýst að Beina brautin hafi ekki reynst vera sú strikbeina leið sem átti að leiða til úrlausnar heldur skrykkjótt braut sem sumir hafa lýst að sé orðin að hálfgerðu völundarhúsi eða beinlínis bein braut til glötunar. Ef fram heldur sem horfir kann að vera að þróunin leiði til mikilla gjaldþrota í atvinnulífinu með samsvarandi uppsögnum og efnahagslegu tjóni.

Hvers vegna gengur þetta svona illa, hvers vegna gengur Beina brautin svona illa? Fyrir því eru auðvitað mjög margar ástæður en það hefur komið fram á fundum hv. viðskiptanefndar t.d. frá forsvarsmönnum Félags atvinnurekenda, sem heldur um hagsmuni lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og undir þau sjónarmið hefur Viðskiptaráð Íslands tekið, að það ríki allt of mikil réttaróvissa um það með hvaða hætti taka eigi á skuldamálum fyrirtækja. Sú réttaróvissa hefur verið staðfest af hálfu þeirra sem fara með eftirlit með starfsemi banka og úr þeirri réttaróvissu verður að greiða. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum þess vegna núna í heilt ár lagt áherslu á að öll þessi mál, hrunmálin svokölluðu, fái flýtimeðferð í dómskerfinu. Sem betur fer hefur meiri (Forseti hringir.) hlutinn í allsherjarnefnd fallist á þá tillögu með okkur (Forseti hringir.) en það hefði auðvitað átt að gera fyrir löngu, löngu síðan.

Virðulegi forseti. Það verður að grípa til aðgerða strax og hæstv. ráðherra verður að spýta (Forseti hringir.) í lófana svo að við þurfum ekki að vera að ræða þessi mál endalaust í þinginu.