139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Öllum sem hér eru er ljóst að úrvinnsla skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja er eitt brýnasta hagvaxtarverkefni okkar. Hvort sem litið er til atvinnuleysis eða fjárfestingar er mikilvægt að koma þessum geira atvinnulífsins í gang á nýjan leik. Það eru fjórir kostir sem standa fyrirtækjum til boða, það er Beina brautin, að mál þeirra séu leyst án afskrifta, höfuðstólslækkun eða gjaldþrot, en þá hljóta menn að líta til þess að það þurfi þó ekki að vera svo slæmt því að með þeim hætti getum við farið að nýta framleiðsluþættina betur í okkar samfélagi, því að breyttar forsendur eru vissulega til staðar í umhverfi okkar í dag. Þegar þessi fyrirtæki voru stofnuð á sínum tíma var allt annað efnahagsumhverfi í gangi.

Það er ánægjulegt að heyra að það er mikill gangur í þessari úrvinnslu. Til dæmis sjáum við í auglýsingu frá Arion banka í dag að um 90% fyrirtækja hjá þeim hafi gengið hina Beinu braut og við sjáum það heilt yfir að bankarnir reikna með að ljúka úrvinnslu skuldamála fyrirtækja og einstaklinga á þessu ári, sem er þó nokkuð miklu fyrr en menn reiknuðu með á sínum tíma.

Það er mikilvægt að við beitum þeim stofnunum sem við höfum til þess að flýta þessari úrvinnslu, að Fjármálaeftirlitið t.d. geti beitt eiginfjárreglum til þess að bankar sjái sér hag í því að ljúka uppgjöri vanskilaeigna eða vanskilalána. En það er mikilvægt að við höldum uppi umræðunni og höldum uppi þrýstingi á samningsaðila. Við erum ekki beinn aðili að þessu samningssambandi á milli bankans og fyrirtækisins en á vettvangi þingsins, vettvangi þingnefnda og svo í gegnum ráðuneytin er mikilvægt að við flýtum þessum málum enda er um að ræða lykilatriði í viðspyrnu efnahagslífsins eftir efnahagshrunið. Þess vegna hljótum við að gleðjast yfir þeirri stöðu sem ráðherra birtir okkur nú um að betur gangi en á horfðist.