139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

staða minni og meðalstórra fyrirtækja.

[11:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta í upphafi að ég batt miklar vonir við þessa beinu braut og ég tel að sú hugmyndafræði sem var þar á bak við hafi verið alveg rétt, enda sjáum við að bankarnir hafa að sögn einnig verið að beita þessari hugmyndafræði til skuldaúrlausnar fyrir stærri fyrirtæki. Má kannski segja sem svo að hugsunin að baki því hafi verið rétt enda standa atvinnulífið, fjármálafyrirtækin og hið opinbera að því.

Auðvitað er það líka uppörvandi, ef það er þannig og ef það er vísbending um árangurinn, að tveir af stærstu bönkunum muni skila tilboðum gagnvart öllum þeim fyrirtækjum sem þeir hafa til meðhöndlunar núna fyrir mánaðamótin.

Ég vil þó vekja athygli á einu. Fram kom í máli hæstv. viðskiptaráðherra að um væri að ræða 6 þús. fyrirtæki, sem flokkuð væru sem lítil eða meðalstór fyrirtæki, veltu innan við milljarð kr., að skuld þeirra væri um milljarður kr. En það kom líka fram að af þessum 6 þús. fyrirtækjum mundu 1.500, þ.e. einn fjórði þeirra fyrirtækja sem flokkast sem minni eða meðalstór fyrirtæki, að óbreyttu stefna í gjaldþrot. Það eru heilmikil og mjög alvarleg tíðindi. Það mun auðvitað hafa m.a. áhrif á atvinnustig, það er gríðarleg sóun í þjóðfélagi okkar þegar einn fjórði minni eða meðalstórra fyrirtækja stefnir lóðbeint í gjaldþrot. Það er út af fyrir sig árangur að senda eigi þessi tilboð fyrir mánaðamótin en tilboð er eitt og niðurstaða er annað. Ég hef miklar áhyggjur af því að tilboðin feli það í sér að fyrirtækin verði áfram allt of skuldsett, að fyrirtækin verði í þeim vandræðum að þau muni ekki hafa svigrúm til að fjárfesta. Það er mjög alvarlegt vegna þess að við þurfum á fjárfestingunni að halda, sérstaklega á fjárfestingu frá minni og meðalstórum fyrirtækjum sem eru svo stór hluti af atvinnusköpuninni. Ef það gerist ekki, ef niðurstaðan verður sú eins og margir halda fram, að fyrirtækin (Forseti hringir.) verði áfram svona mikið skuldsett og geti lítið aðhafst erum við áfram föst í miklu feni sem við komumst ekki upp úr.