139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[11:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki á þskj. 1382.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Í frumvarpinu er kveðið á um eftirlit með slitastjórnum, eftirlit Fjármálaeftirlitsins með slitum fjármálafyrirtækja sem stýrt er af slitastjórnum óháð því hvort viðkomandi fjármálafyrirtæki hafi starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þeirra hafi verið afturkallað og skal eftirlitið einnig ná til dótturfélaga þeirra. Í þessum tilgangi eru Fjármálaeftirlitinu veittar heimildir til að beina kröfu til héraðsdóms um að mönnum sem eiga sæti í slitastjórnum verði vikið frá auk þess sem það getur beint kröfu til héraðsdóms um að ábyrgð á rekstri fjármálafyrirtækis sem er í fjárhagslegri endurskipulagningu eða í slitum verði færð til slitastjórnar annars fjármálafyrirtækis. Til slíks gæti komið í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við það sem til er ætlast samkvæmt lögum.

Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins skulu eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins einnig ná til skilanefnda sem starfa samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V við lög um fjármálafyrirtæki.

Frá lagabreytingum á árinu 2009 hafa fjármálafyrirtæki í slitum sem hafa enn þá starfsleyfi fallið undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins með sama hætti og önnur fjármálafyrirtæki með starfsleyfi. Hins vegar hafa þau fjármálafyrirtæki sem eru í slitum en hafa takmarkað starfsleyfi eða hafa misst starfsleyfi sitt ekki sætt sérstöku eftirliti. Æskilegt er að sambærilegar reglur gildi um eftirlit með störfum slitastjórna fjármálafyrirtækja í slitum, óháð því hvort þau hafi enn starfsleyfi. Sama gildir um dótturfélög fjármálafyrirtækja í slitum. Sérstök þörf er fyrir virkt eftirlit með störfum slitastjórna, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem viðkomandi fjármálafyrirtæki er enn þá með virk eignasöfn og slitastjórnirnar eru að höndla með útlán til einstaklinga eða fyrirtækja. Í öllum markaðsviðskiptum byggist jafnræði aðila á þeirri einföldu staðreynd að báðir eiga langtímahagsmuni af viðskiptasambandinu. Ef annar aðili samningssambandsins er slitastjórn kunna langtímahagsmunir að víkja fyrir öðrum hagsmunum búsins sem þó geta verið málefnalegir, svo sem hagsmunum kröfuhafa af heimtum, og freistandi getur verið að nýta öll tækifæri til að þvinga viðskiptamenn til að greiða kröfur að fullu, jafnvel þótt efnisleg rök séu fyrir aðlögun kröfu að greiðslugetu í samræmi við ákvæði laga nr. 107/2009 og samninga sem byggðir hafa verið á þeim lögum, jafnt í tilvikum einstaklinga sem fyrirtækja. Vart hefur orðið við dæmi um að í einstökum tilvikum hafi slitastjórnir ekki mætt eðlilegum óskum viðskiptamanna um úrvinnslu skuldamála sinna á grundvelli t.d. samkomulaga sem gerð hafa verið um meðferð erfiðra skuldamála á grundvelli laga nr. 107/2009 og það eru líka dæmi um að einstakar slitastjórnir hafi gert aðrar kröfur um meðferð skuldamála fyrirtækja en kveðið er á um í Beinu brautinni. Þá er það þannig að slitastjórnirnar hafa í sjálfu sér fullnaðarvald um þá afstöðu og eru ekki bundnar af þessum samkomulögum og komast þar með undan lagaákvæðunum sem liggja þeim til grundvallar. Það er því gert ráð fyrir að ákvarðanir slitastjórna um innheimtu lána og umbreytingu lána verði meðal þess sem Fjármálaeftirlitinu ber að taka til athugunar enda gert ráð fyrir því í frumvarpinu að fjármálafyrirtæki í slitum starfi í samræmi við góða viðskiptahætti.

Eftirlit Fjármálaeftirlitsins mun með sama hætti einnig taka til ákvarðana slitastjórna, sem mjög hafa verið í umræðunni, um endurgjald til slitastjórna eða viðskipti við slitastjórnarmenn eða fyrirtæki í eigu þeirra. Er sérstaklega kveðið á um í 2. mgr. 3. gr. að viðskipti fjármálafyrirtækis sem stýrt er af slitastjórn eða viðskipti slitastjórnar við einstaka aðila sem sitja í slitastjórn, eða aðila í nánum tengslum við slíkan aðila, skulu fara að reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Skal Fjármálaeftirlitið að eigin frumkvæði eða á grundvelli ábendinga kröfuhafa hafa eftirlit með slíkum viðskiptum.

Það hefur í sjálfu sér verið afstaða ráðuneytisins að á grundvelli hinna almennu ákvæða um skyldu fjármálafyrirtækja til að fara að góðum viðskiptaháttum hafi slitastjórnir og skilanefndir þeirra fjármálafyrirtækja sem enn hafa starfsleyfi í reynd verið bundnar af reglum um góða viðskiptahætti, en mikilvægt er að okkar áliti að taka hér algerlega skýrt fram að það er skilningur löggjafans að svo sé og fela Fjármálaeftirlitinu eftirlit að þessu leyti. Eðlilegt er að ekki ríki vafi um að ákvarðanir slitastjórna og skilanefnda um eigin kjör, um afgjald, um viðskipti við fyrirtæki í eigu slitastjórnarmanna eða skilanefndarmanna eða félög þeim tengdum séu óeðlilegar. Það er fullkomlega eðlilegt að með þessum þáttum sé haft virkt eftirlit og að tryggt sé að efnislegar forsendur liggi til grundvallar slíkum viðskiptum og ákvörðunum af hálfu skilanefnda og slitastjórna.

Í frumvarpinu er einnig fjallað nokkuð um réttindi kröfuhafa. Markmiðið með ákvæðunum í frumvarpinu að því leyti er að auka aðkomu kröfuhafa að mikilsverðum ákvörðunum og að auðvelda gerð nauðasamninga í tilviki fjármálafyrirtækja. Lagt er til að gerð verði ríkari krafa til upplýsingagjafa slitastjórnar fjármálafyrirtækis sem verði þá að boða til fundar með kröfuhöfum áður en mikils háttar ákvarðanir verða teknar um sölu eða ráðstöfun réttinda eða eigna. Settar hafa verið upp óformlegar kröfuhafanefndir í tilvikum stóru gömlu bankanna þriggja og þær hafa fundað reglulega með skilanefndum og fulltrúum slitastjórna bankanna. Ekki er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að hrófla við störfum þeirra nefnda og gert er ráð fyrir að þær starfi áfram. Við teljum að ákvörðun um hvort setja eigi slíkar nefndir á fót með lögformlegum hætti og fela þeim tiltekin verkefni á þessu stigi í slitunum verði ekki tekin nema að undangenginni ítarlegri athugun sem ekki reyndist unnt að ljúka áður en þetta frumvarp var lagt fram. Við munum áfram vinna að athugun á því og hafa um það samráð við kröfuhafa. Þar leikast auðvitað á tvenn sjónarmið. Það er mikilvægt að tryggja aðkomu kröfuhafa að ferlinu og taka við athugasemdum þeirra að öllu leyti en það er líka mikilvægt að ákvörðunum kröfuhafa fylgi ábyrgð þannig að það sé ekki svo að kröfuhafar fái ákvörðunarrétt um efni búskiptanna en beri ekki ábyrgð á þeim ákvörðunum. Það er líka alltaf umdeilanlegt hversu miklar breytingar rétt væri að gera að þessu leyti og á þessu stigi í slitameðferð en við munum vilja ræða það áfram við fulltrúa kröfuhafa í góðri sátt og samvinnu. Með þeirri breytingu sem gerð er í frumvarpinu er tryggt að mikilsverðar ákvarðanir komi til funda kröfuhafa og þeim gefist þá færi á að láta til sín taka varðandi þær ákvarðanir. Því hefur verið haldið fram að í einstökum tilvikum kunni ákvarðanir slitastjórna að hafa verið óþarfar vegna þess að kröfuhafar hefðu getað hlaupið undir bagga með slitastjórnum, t.d. varðandi lánafyrirgreiðslu eða annað slíkt, og það er sjálfsagt að skapa færi fyrir það að kröfuhafar geti komið að ábendingum og athugasemdum í aðdraganda mikilsverðra ákvarðana.

Til að greiða fyrir að slitum verði lokið með nauðasamningi er lagt til að reglur um nauðasamninga við lok slita verði breytt á þann veg að sá frestur sem áskilinn er milli fundar um atkvæðagreiðslu við nauðasamningsumleitanir fram til framhaldsfundar verði lengdur, úr tveimur vikum í átta vikur. Er það gert til að greiða fyrir því að unnt sé að ljúka slitum með nauðasamningi, í stað þess að slitastjórn óski eftir gjaldþrotaskiptum á búi fjármálafyrirtækis. Þá er til viðbótar lagt til að reglum um atkvæðagreiðslu við nauðasamning fjármálafyrirtækis verði breytt á þá lund að samþykki atkvæðismanna sem talið er eftir höfðatölu miðist við þá sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni, en ekki þá sem lýst hafa kröfu við slit fjármálafyrirtækis. Þó er vikið frá gildandi reglum að því leyti að áskilið er aukið samþykki þeirra, þ.e. samþykki 70% þeirra atkvæðismanna sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni, talið eftir höfðatölu. Með fyrirhugaðri lengingu frests við nauðasamningsumleitanir við slit fjármálafyrirtækis og breytingu á reglum um atkvæðagreiðslu við nauðasamningaumleitanir, samhliða því að slitastjórn hefur möguleika á að breyta frumvarpi sínu til nauðasamnings eftir ákvæðum 47. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., er því komið til móts við hagsmuni kröfuhafa og slitastjórnar við að ljúka slitum með nauðasamningi, án þess að vikið sé frá almennum reglum um jafnræði kröfuhafa við slitin.

Með vísan til þessa er ljóst að lagaskilyrði eru ekki til þess að slitastjórnir geti haldið búi fjármálafyrirtækis í rekstri, án þess að taka ákvörðun um hvort leita skuli eftir nauðasamningi með kröfuhöfum eða fara fram á að bú verði tekið til gjaldþrotaskipta þegar lögmæltar forsendur slíkrar ákvörðunar eru á annað borð fyrir hendi. Ekki er að óbreyttum lögum að finna heimildir til að þrotabú fjármálafyrirtækja geti starfað árum saman án þess að nauðasamninga sé leitað eða bú þeirra tekin til gjaldþrotaskipta. Því er þetta tekið fram hér til að taka af allan vafa um að markmið stjórnvalda og löggjafans er að slitaferlinu ljúki með skilvirkum hætti, annaðhvort með nauðasamningum eða með gjaldþrotameðferð og það sé ekki val að reka þrotabúin áfram undir stjórn skilanefnda eða slitastjórna um langa hríð án þess að taka ákvörðun um hvora leiðina beri að fara. Það skiptir máli fyrir íslenskt samfélag að ljúka þessum búskiptum í eins góðri sátt og mögulegt er við kröfuhafa og með eins réttum og sanngjörnum hætti og mögulegt er, en það er mikilvægt að fá lok í þetta ferli og að þau lok verði með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í lögum og hefur alltaf verið gert ráð fyrir í lögum, annaðhvort með nauðasamningum eða með gjaldþrotaskiptum.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er einnig að finna í 1. gr. ákvæði sem hafa í för með sér að brugðist er við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar tilskipunar nr. 24/2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana en í því skyni eru lagðar til smávægilegar breytingar á 2. mgr. 99. gr. og 1. mgr. 102. gr. laganna. Hér er um að ræða reglur sem fjalla um réttaráhrif þess að slit hefjast á fjármálafyrirtæki, m.a. um lagaval, og svo frekari undantekningar frá þeirri meginreglu að við slit og fjárhagslega endurskipulagningu fjármálafyrirtækis skuli lög heimaaðildarríks gilda við tilteknar aðstæður.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til viðskiptanefndar.