139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[12:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir svarið sem reyndar gefur mér ekki tilefni til bjartsýni um að við munum koma böndum á launagreiðslur til slita- og skilanefnda, því miður. Það gefur okkur aftur á móti kannski frekara tilefni til þess að setja á einhvers konar hátekjuskatt til að draga úr hvata þessara einstaklinga til að hækka laun sín í skjóli þess að kröfuhafar hafi ekki beina hagsmuni af því að labba niður í héraðsdóm og gera athugasemdir við háan launakostnað.

Herra forseti. Ég vil jafnframt koma annarri fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sú fyrirspurn á við um slitastjórnir sem ekki hafa viljað taka þátt í þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa samið við aðrar fjármálastofnanir um að bjóða skuldsettum heimilum. Ég mundi gjarnan vilja fá upplýsingar um það frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvað það nákvæmlega er í þessu frumvarpi sem tryggir að lántakendur sem tóku lán hjá þessum gjaldþrota fjármálastofnunum og eru núna í slitameðferð fái alla vega þau úrræði sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir að fjármálastofnanir bjóði upp á.