139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[12:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að stytta þann tíma sem líður þar til eignarhald þessara fyrirtækja verður skýrt. Í því skyni erum við að auðvelda nauðasamningameðferðina þannig að það verði auðveldara að fara þá leið og koma félögunum í gegnum það ferli til eignarhalds þeirra sem kröfur eiga í búið.

Að því er varðar hvernig þetta gengur er hægt að upplýsa hv. þingmann um að það er nokkuð misjafnt milli fyrirtækjanna sjálfra og byggir að mestu leyti á því hve misjafnlega hratt hefur gengið að skýra skuldbindingar búanna. Skilanefnd Kaupþings er mjög langt komin að feta sig í átt að nauðasamningaferli, en hvað varðar t.d. skilanefnd Landsbankans þá eru enn þá í gangi dómsmál um forgang innstæðna o.s.frv. sem valda því að heildarumfang skuldbindinga búsins er ekki orðið ljóst og þar af leiðandi lengra í að hægt sé að koma því búi í gegnum nauðsynlegt umbreytingarferli. Aðalmarkmiðið er að ferlið gangi eins fljótt og kostur er.

Við erum að reyna, með þeim hætti þó að gæta jafnræðis kröfuhafa og þess að hlunnfara þá ekki á nokkurn hátt, að auðvelda innan þess ramma eins og kostur er að ljúka nauðasamningum sem er hið eðlilega og alþjóðlega viðurkennda ferli og aðferðafræðin til að leiða til lykta mál af þessum toga.