139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[12:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að þau málaferli og þau mál sem við erum að ræða eru afskaplega flókin, viðamikil og umfangsmikil.

Hér var lögð fram tillaga fyrir nokkrum árum um að öll málaferli sem tengjast hruninu yrðu í flýtimeðferð. Það var ekki samþykkt. Það var ekki einu sinni rætt.

Ekki er enn þá búið að ganga frá málaferlum varðandi Landsbankann sem er, frú forseti, í eigu innlánstryggingarsjóðs breskra og hollenskra ríkisstjórna. Allir sem eiga kröfur í Landsbankann eru sem sagt opinberir aðilar. Eins er með nýja Landsbankann. Hann er líka í eigu opinberra aðila.

Spurningin er: Liggur fyrir einhver tímarammi eða tímaáætlun hjá ráðuneytinu um það hvenær þessum ferlum öllum verður lokið? Það væri ágætt ef sú tímaáætlun yrði hreinlega opinberuð og kynnt fyrir þinginu hvernig menn hygðust leysa þetta vegna þess að um leið og koma eigendur að bönkunum sem skipa þar inn stjórnir og vilja fá arð af peningum sínum þá fara menn að taka til hendinni og gera eitthvað. Þá fara menn að knýja fyrirtæki inni á beinu brautina og reyna að leysa vanda þeirra þannig að allir aðilar hagnist og þjóðfélagið þar með. En meðan þetta er allt saman í hendi aðila sem eiga ekki neitt í þessu og eru sumir hverjir með mjög há laun þá er enginn hvati til að klára málin. Ef hæstv. ráðherra væri með 5 milljónir á mánuði í slitastjórn, hvaða áhuga hefði hann á því að klára verkefnið innan tveggja mánaða? Hann mundi helst vilja klára það innan tveggja eða 20 ára.