139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi eðli málsins og þann tíma sem það hefur verið í þinginu. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega voru greidd atkvæði áðan um afbrigði til að málið mætti komast á dagskrá en það er vegna þess að það kom fram eftir lok marsmánaðar og til þess þarf þá afbrigði til að taka málið á dagskrá. Því var hins vegar dreift á þriðjudag. Ef við hefðum verið í marsmánuði hefði ekki þurft nein afbrigði. Málið hefði legið nógu lengi og réttilega frammi í þinginu miðað við venjur og almennar reglur þingskapa ef við hefðum náð málinu inn fyrir lok mars.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki verið að gera grundvallarbreytingar. Það er verið að festa í lög þær efnisreglur sem hingað til hafa verið í reglum Seðlabankans sem settar hafa verið á grundvelli bráðabirgðaheimildar í lögunum og við teljum eðlilegra að hafa fastari umbúnað um hina lagalegu umgjörð málsins en núna.