139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er mjög stórt í sniðum og varðar gríðarlega hagsmuni. Það er ákaflega erfitt að koma inn á alla þætti þessa máls í stuttri ræðu en í fyrri ræðu minni vék ég að því að það hafa komið fram efasemdir um að reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál hafi haft næga lagastoð til að á þeim verði byggt, a.m.k. fram til 20. október 2010. Fyrir því gerði Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður grein fyrir í grein sem birtist í Lögmannablaðinu í desember sl., hygg ég, undir yfirskriftinni „Seðlabanki Íslands leggur á fjötra án heimilda“. Í lok greinar sinnar, sem eru heilmikil skrif sem byggja á merkilegri rannsókn hans á gjaldeyrisreglunum, kemst Reimar að þeirri niðurstöðu að gjaldeyrismál þjóðarinnar séu í miklu óefni, stjórnvaldsfyrirmæli hafi verið gerð án lagaheimilda, áskilin samþykki liggi óbirt ef þau þá liggja fyrir, og á meðan séu gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir undir og ríkisstjórnin og Alþingi verði að láta málið til sín taka.

Þessum sjónarmiðum hæstaréttarlögmannsins sem ég vék að hluta til að í fyrri ræðu minni hefur að mínu viti ekki verið svarað opinberlega. Þegar þetta frumvarp kemur til umfjöllunar í hv. efnahags- og skattanefnd hljóta menn að þurfa að fara ofan í það hvort hæstaréttarlögmaðurinn hafi eitthvað til síns máls og kanna hvort það sé rétt að gjaldeyrisreglur Seðlabankans sem starfað hefur verið eftir hafi skort lagastoð m.a. vegna þess að þær voru ekki birtar með lögformlegum hætti. Eins og hæstv. ráðherra veit er það almenn regla í íslenskum rétti að lög og reglur öðlast ekki lagagildi fyrr en þau birtast í Stjórnartíðindum. Í lögum um gjaldeyrismál er ítrekað tekið fram að Seðlabankinn setji reglur um gjaldeyrishöft að fengnu samþykki hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, en á slíkt samþykki virðist hafa skort, a.m.k. formlega.

Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi eins og ég rakti. Meðal annars hafa farið fram rannsóknir á meintri refsiverðri háttsemi vegna brota á gjaldeyrisreglum Seðlabankans sem kunna að leiða til þess að þau mál falli niður af þessum ástæðum. Sömuleiðis kann að vera að ýmsir viðskiptagerningar hafi verið stoppaðir á forsendum sem ekki geta talist málefnalegar úr því að þær skortir lagastoð. Síðan eru auðvitað undir öll önnur viðskipti, m.a. með aflandskrónur.

Ég vék að því í andsvari við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort ekki væri ástæða til þess úr því að menn leggja til breytingu á lögum um gjaldeyrismál að fella inn í frumvarpið, vilji menn halda því til streitu, einhvers konar skilgreiningu á aflandskrónuhugtakinu sem fyrirfinnst ekki í íslenska lagasafninu eins og það er nú. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt ef menn ætla á annað borð að setja reglur um viðskipti með slíkar krónur, ekki síst ef ætlunin er sú að skerða frelsi manna til að eiga viðskipti með þær.

Ég vil síðan ítreka það í lokin, virðulegi forseti, að þrátt fyrir þessar ábendingar harma ég að þetta frumvarp sé fram komið í því formi sem það er vegna þess að eins og ég kom að í upphafi (Forseti hringir.) felur það í sér algjöra uppgjöf hæstv. ríkisstjórnar gagnvart því að afnema hér gjaldeyrishöft.