139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hæstv. innanríkisráðherra eigum það sameiginlegt að vilja beita öllum þeim brögðum og ráðum sem til eru til að berjast gegn mansali enda er mansal svívirðilegur glæpur og mikilvægt er að taka hart á gagnvart þeim sem verður uppvís að slíku.

Í þessu frumvarpi er lagt til að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi. Mér heyrðist hæstv. innanríkisráðherra rökstyðja breytingartillögu sína með því að vísa til þess hversu alvarleg þessi brot eru, eins og má til sanns vegar færa og taka undir með hæstv. innanríkisráðherra um.

Á þessu eru þó fleiri hliðar vegna þess að þeir sem stunda mansal eru ekki neinir smákrimmar heldur harðsvíraðir glæpamenn sem svífast einskis til að ná vilja sínum fram. Helstu vitnin í þessum málum eru fórnarlömbin sjálf, þ.e. þeir eða þær, sem þurfa að þola það að aðrir menn selji líkama þeirra milli landa. Með því að hækka refsinguna úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi velti ég fyrir mér hvort verið sé að bjóða þeirri hættu heim að það séu meiri líkur en minni að gerendurnir í þessum málum beiti tjónþola eða fórnarlömbin auknum og harðari þrýstingi við meðferð (Forseti hringir.) og rannsókn mála en vera kynni ef refsingin yrði óbreytt. Ég er ekkert að fullyrða um að svo verði, ég bendi bara á þann (Forseti hringir.) þátt málsins.