139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessar breytingar endurspegla, hygg ég, hve alvarlegum augum við lítum þessi brot eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerir og kom fram í hans máli. Hann veltir því fyrir sér hvort þynging refsingar verði til þess að meiri hörku kunni að verða beitt gagnvart þeim sem ljóstrar upp um slíkt. Önnur hlið á því máli er vitneskjan um að þeir sem fundnir verða sekir fyrir þessi alvarlegu brot verði í alvöru lokaðir inni og teknir úr umferð í samfélaginu. Þetta er matskennt og hægt að velta vöngum yfir því.

Þetta er stefnan sem almennt er verið að taka í hinum vestræna heimi. Ég horfi til skýrslugerðar sem Bandaríkjastjórn hefur staðið fyrir í þessum efnum. Við höfum einnig átt viðræður við fulltrúa erlendra ríkja sem vilja samræma refsirammann þegar kemur að þessum alvarlegu brotum.