139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra skilur orð mín ekki þannig að ég sé að lýsa yfir andstöðu við þetta mál eða þá breytingu sem hann mælir fyrir. Ég er einungis að velta því upp að á því kunni að vera fleiri fletir. Við hæstv. ráðherra erum sammála um að mansalsbrot eru ákaflega alvarleg og á þeim ber að taka harkalega.

Eins og ég sagði áðan eru það engir smákrimmar sem fremja slík brot heldur harðsvíraðir glæpamenn sem gjarnan tengjast glæpahópum sem stunda það sem kallað er í daglegu máli skipulega glæpastarfsemi. Það eru í rauninni fleiri afbrot sem slíkir glæpamenn stunda eins og fíkniefnabrot og önnur slík. Í þeim heimi þekkist það að höfuðpaurarnir ganga býsna hart fram í því að beita vitni, fórnarlömbin, eða þá sem þeir fá til að vinna fyrir sig miklum þvingunum og þrýstingi og hótunum til að komast hjá því að þeir uppljóstri um þá verknaði sem til rannsóknar eru hverju sinni og hafa í mjög alvarlegum hótunum við þá aðila sem í hlut eiga.

Ég var bara að benda á að mansalsmál eru þess eðlis að lykilvitnin í þeim málum eru fórnarlömbin sjálf. Það kann að vera að þegar búið er að færa refsirammann upp undir það sem tíðkast t.d. í manndrápsmálum kunni hvatinn til þess að beita slíkum hótunum að verða meiri en áður. Þess vegna vakna upp spurningar, ætli menn að ráðast í þessa breytingu, um hvort það þurfi ekki að skoða breytinguna í samhengi við þær reglur sem gilda samkvæmt núgildandi (Forseti hringir.) lögum um vitnavernd, svo að dæmi sé tekið.