139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir ágæta yfirferð á þessu máli. Mansal er svartur blettur á mannkyninu og tölur um mansal eru ákaflega mikið á reiki en það virðist vera mjög útbreitt. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann viti hversu útbreitt mansal er, hversu margt fólk er selt og hve stór hluti af því fer í kynlífsþjónustu og hve stór til vinnu, bæði karlar og konur eru oft líka seld mansali í þeim tilgangi að vinna sem eins konar þrælar. Hefur hann upplýsingar um þetta og hve mikið af málunum fer fyrir dóm?

Vandinn er sá að sönnunarbyrðin er mjög erfið og eins að vinna í málunum vegna þess að í upphafi vinna fórnarlömbin oft með gerendunum. Þeim er lofað einhverju, eins og að verða leikkonur eða dansarar eða að fara á námskeið eða eitthvað slíkt, og vesalings fólkið fellur fyrir þeim gylliboðum og vinnur með glæpamönnunum alveg þangað til komið er á þann stað sem það á að vinna á eða þar sem það er misnotað. Þá kemur upp hvað það er orðið háð viðkomandi glæpamanni sem tekur af þeim passann o.s.frv. Og oft og tíðum eru fórnarlömbin hinn seki í málinu — þannig er það í mörgum löndum.

Önnur spurning mín til hæstv. ráðherra er hvort ekki sé skynsamlegra að fara í upplýsingaherferð að uppsprettu mansals, þar sem mansal hefst, og upplýsa fólk um hvað er eiginlega verið að gera með þessum loforðum.