139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[14:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála áherslum hv. þingmanns og þeim vangaveltum sem hann setti hér fram: Hvar byrjar glæpurinn, hvar endar hann, hvað vitum við mikið? Jú, það byrjar iðulega eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal vék að sjálfur í örbirgð og endar í brostinni von um ríkidæmi en byrjar jafnframt líka í þekkingarleysi og endar í valdbeitingarsamfélagi. Ég vísa þar í Sádi-Arabíu svo dæmi sé tekið. Við erum þess mjög meðvituð að við erum að tala um alþjóðlega glæpastarfsemi, þess vegna tökum við þátt í alþjóðlegu átaki og sú aðgerðaáætlun sem samþykkt var hér af hálfu stjórnvalda byggir á þeim þáttum sem hv. þingmaður vísar sérstaklega til, m.a. að því að stuðla að fræðslu gagnvart þeim sem eru kaupendur vændis til að stemma stigu við eftirspurninni svo að menn geri sér grein fyrir því hvað þeir eru að gera.

Stundum er talað um þrjá meginglæpi sem stóra ógn: Sala á hörðum eiturlyfjum, sala á vopnum og síðan sala á manneskjum, aðallega konum og börnum til þrældóms eða kynlífsþjónustu sem er að sjálfsögðu ekkert annað en þrældómur. Ef við hefðum varið eins miklum fjármunum og pólitískum krafti í að berjast gegn þessu og varið hefur verið í baráttuna gegn hryðjuverkum væri það vel.