139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

699. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, með síðari breytingum.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mælti fyrir frumvarpinu sl. fimmtudag og nefndin hefur í millitíðinni fjallað um málið. Þingmenn þekkja þetta mjög vel og sérstaklega nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd. Það má segja að málið sé góðkunningi þingmanna, það snýst einfaldlega um það að fresta gjaldtöku til þess að standa undir störfum eftirlitsnefndar Félags fasteignasala þriðja árið í röð. Þetta gjald hefur verið innheimt samkvæmt lögum á hverju ári en með bráðabirgðaákvæði var gjaldtaka felld niður vegna ársins 2009 og vegna ársins 2010 en fjárhæð gjaldsins nemur 100 þús. kr. á hvern fasteignasala.

Frá því að innheimta gjaldsins hófst hefur safnast í nokkurn sjóð þar sem kostnaður við eftirlitið hefur reynst minni en talið var í upphafi. Fram kom við umfjöllun um málið að um 60 millj. kr. væru í sjóðnum og að gert væri ráð fyrir því að tæplega 20 millj. kr. mundu innheimtast á næsta gjalddaga sem er 1. júlí nk. að óbreyttum lögum.

Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og því er með þessu frumvarpi lagt til að gjaldtökunni verði frestað til ársins 2012 en stefnt er að því að hið nýja frumvarp verði lagt fram á næsta þingi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Sigurður Kári Kristjánsson og Skúli Helgason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálit þetta rita auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Valgerður Bjarnadóttir, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason og Margrét Tryggvadóttir.