139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

lækkun húshitunarkostnaðar.

466. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um lækkun húshitunarkostnaðar. Flutningsmenn ásamt mér eru 15 þingmenn úr fjórum þingflokkum þannig að segja má að við málið sé víðtækur og þverpólitískur stuðningur. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að setja á laggirnar nefnd er móti tillögur um lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er nú hæstur, marki stefnu um fyrirkomulag á niðurgreiðslum vegna hitunar á íbúðarhúsnæði og skoði hvernig unnt sé að stuðla að varanlegri lækkun húshitunarkostnaðar á svokölluðum „köldum svæðum“. Stefnt sé að því að þessi kostnaður verði sem næst kostnaði hjá meðaldýrum hitaveitum, eða tiltekið hlutfall af húshitunarkostnaði á orkuveitusvæði Orkuveitu Reykjavíkur og hjá sambærilegum hitaveitum. Nefndin verði skipuð fulltrúum þingflokka, sveitarfélaga og orkufyrirtækja og skili tillögum sínum fyrir árslok 2011.

Tilefni þess að þessi þingsályktunartillaga er flutt er það að húshitunarkostnaður hefur á undanförnum árum orðið stöðugt þyngri þáttur í framfærslu heimila víða á landsbyggðinni. Þó er álitið að það séu einungis 36–37 þús. manns sem búa á svokölluðum „köldum svæðum“, þ.e. svæðum þar sem húshitunarkostnaðurinn er mestur. Við höfum á undanförnum árum varið nokkru fé til þess að reyna að lækka þann kostnað en því miður hefur þróunin verið neikvæð síðustu árin. Á fjárlögum þessa árs er varið 1,1 milljarði kr. til niðurgreiðslu en á sama tíma hefur húshitunarkostnaðurinn engu að síður verið að hækka jafnframt því að lífskjör hafa verið að versna, eins og allir vita.

Ég bar fram fyrirspurn á sínum tíma til hæstv. iðnaðarráðherra um þetta mál og má segja að svarið við þeirri fyrirspurn sé á vissan hátt grundvöllur þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Í svari hæstv. iðnaðarráðherra við þeirri fyrirspurn koma fram ískyggileg dæmi um þróunina eins og hún hefur orðið á undanförnum árum. Taka má dæmi um kostnað við kyndingu á 180 fermetra húsnæði í dreifbýli á svæði Rariks. Hann er nú talinn vera um 238 þús. kr. á ári, eða um 20 þús. kr. á mánuði. Kostnaðurinn var 166 þús. kr. árið 2000, og hér er borinn saman kostnaður á sambærilegu verðlagi, það svarar til mánaðarlegs kostnaðar upp á tæpar 14 þús. kr. Lægstur er kostnaðurinn árið 2002, þá var hann 138 þús. kr. á ári eða 11 þús. kr. á mánuði.

Hækkunin frá árinu 2000 er því um 43%, en hvorki meira né minna en 72% sé árið 2002 tekið til viðmiðunar. Það er ekki fyrirséð að þeirri þróun verði snúið við heldur þvert á móti því að á þessu ári dregur enn úr niðurgreiðslu til húshitunarkostnaðar frá því sem var á síðasta ári.

Ef við skoðum til samanburðar þróun húshitunarkostnaðar á svæði Orkuveitu Reykjavíkur — ég vil taka það fram að hér er ekki búið að taka tillit til nýjustu hækkunarinnar hjá Orkuveitunni, 8%, en búið er að taka tillit til hækkunarinnar sem varð í fyrrahaust sem var allmiklu meiri. Talið er að það kosti um 93 þús. kr. að kynda sambærilegt húsnæði á svæði Orkuveitu Reykjavíkur. Það svarar til um 8 þús. kr. mánaðarlegs húshitunarkostnaðar, en árið 2000 var kostnaðurinn 100 þús. kr. og var lægstur í fyrra, um 72 þús. kr. á verðlagi ársins í ár, eða um 6 þús. kr. á mánuði.

Það sjá auðvitað allir að það getur ekki gengið svona vegna þess að þetta er farið að verða mjög íþyngjandi, m.a. á landbúnaðarsvæðum þar sem tekjurnar eru lágar. Þetta er farið að hafa veruleg áhrif á afkomu fólks og möguleika fólks til að takast á við ýmislegt annað sem nútímalíf býður upp á.

Þetta er því áhugamál þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum og hefur komið mjög skýrt fram í allri umræðu um þessi mál að þetta er eitt af því sem menn horfa sérstaklega til þegar verið er að ræða stöðu dreifbýlisins á þeim svæðum þar sem húshitunarkostnaðurinn er svona mikill.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar margar tilraunir til að reyna að lækka kostnaðinn með því að gera átak í jarðhitaleit. Það hefur víða borið ágætan árangur og er sannarlega ekki ástæða til annars en að þakka fyrir það. Gripið hefur verið til ráðstafana eins og þeirra að láta þær niðurgreiðslur sem fengist hafa renna til þess að lækka stofnkostnaðinn. Það hefur gert það að verkum að menn hafa getað leitað jarðhita víðar og sett á laggirnar hitaveitur. Það hefur auðvitað hjálpað heilmikið til. Hins vegar kemur fram í tillögu til þingsályktunar um nýja byggðaáætlun að það er mat manna þar að ekki sé mikils að vænta í þessum efnum á næstunni. Þar er frekar vísað til annarra orkukosta, m.a. til svokallaðra varmadælna.

Fyrir liggur frumvarp á Alþingi, sem ég er raunar 1. flutningsmaður að, sem felur í sér heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt af varmadælum, sem gæti þá verið liður í því að lækka húshitunarkostnað. Hins vegar er auðvitað ljóst að aðgerðir af því tagi duga ekki neitt. Menn hafa vísað í að hægt sé að fara í aðgerðir til að bæta t.d. einangrun húsa og fleira af því taginu. Ég vil í því sambandi þó benda á að í þeim efnum hefur fólk á þessum köldu svæðum gert heilmikið. Það er hins vegar heilmikill stofnkostnaður sem fylgir því og hæpið að fólk sjái sér hag í því nema fyrirséð sé að það búi í húsum sínum um langt árabil. Þess vegna hafa menn hikað við að fara í rándýrar aðgerðir af þessu tagi sem ljóst er að muni ekki skila sér til lækkunar á húshitunarkostnaði nema á mjög löngum tíma.

Niðurstaða okkar sem flytjum þessa þingsályktunartillögu er þess vegna sú að það fyrirkomulag að ákveða umfang niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði í fjárlögum hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Oftar en ekki hefur þessi liður orðið fyrir niðurskurði, jafnvel umfram almennan niðurskurð í fjárlögum eins og við höfum séð, t.d. á síðasta ári. Að minnsta kosti er ljóst að þessar fjárveitingar hafa ekki megnað að hamla gegn hækkunum á töxtum til húshitunar eins og tölur sem raktar hafa verið sýna svart á hvítu. Við verðum þess vegna að horfast í augu við að það fyrirkomulag sem nú er í gildi kallar á tafarlausa endurskoðun. Húshitunarkostnaður kemur víða mjög hart niður og á einstökum svæðum er hann mjög stór hluti af heimilisútgjöldum, eins og menn sjá af þeim tölum sem ég rakti t.d. um húshitunarkostnað á svæði Rariks.

Af þessu leiðir að það er mjög brýnt að þegar í stað verði farið í róttæka og gagngera endurskoðun á þessum málum með það að markmiði að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er þungbærastur. Leiðir að því markmiði eru þó nokkrar og geta sannarlega verið umdeildar. Hér er hins vegar um að ræða mál sem Alþingi verður að láta sig varða og freista þess að mynda djúpstæða samstöðu með viðunandi hætti. Annars er hætt við því að enn fari verr í byggðum sem þegar standa höllum fæti.

Með þessari þingsályktunartillögu er ætlunin að kalla til verka fulltrúa allra þingflokka, sveitarstjórnarmanna og orkufyrirtækja og skapa um málið almenna sátt og koma því þannig fyrir að húshitunarkostnaður á köldum svæðum lækki en sé ekki undirorpinn árlegum ákvörðunum við fjárlagagerð hverju sinni.

Ég vil ítreka eitt. Þetta mál er af þeim toga að ég hygg að ekki sé hægt að kalla það með neinum hætti flokkspólitískt. Það sjáum við líka á því að flutningsmenn ásamt mér eru fulltrúar allra þingflokka nema Hreyfingarinnar. Þess vegna endurspeglar það ríkan vilja í þinginu, að ég hygg, til þess að taka á þessum málum. Þetta er samfélagslegt vandamál sem við verðum að horfast í augu við og reyna að nálgast. Við getum auðvitað horft til fortíðar og reynt að fara í einhverja leiki og kennt hvert öðru um. Ég tel að við séum litlu bættari með því og væri miklu skynsamlegra að reyna að vinna að þessu máli með uppbyggilegum hætti og tryggja að við búum nú til fyrirkomulag sem hefur það í för með sér og tryggir að húshitunarkostnaðurinn lækki á þeim svæðum þar sem hann er hæstur fyrir. Það er ekkert óeðlilegt að nefnd sem skipuð yrði með þeim hætti sem ég nefndi áðan þar sem kallaðir yrðu til verka fulltrúar ólíkra stjórnmálaafla, sveitarfélaga, ekki síst á þeim svæðum þar sem hagsmunirnir eru ríkastir, og orkufyrirtækjanna, vegna þess að þar innan borðs er mikil þekking, gæti lokið verki sínu á þessu ári og skilað tillögum sínum fyrir árslok 2011 þannig að nýtt fyrirkomulag gæti tekið gildi þegar á næsta ári.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þetta mál fari til umfjöllunar iðnaðarnefndar og svo síðari umræðu.