139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

lækkun húshitunarkostnaðar.

466. mál
[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kr. Guðfinnssyni fyrir framsögu hans. Mál þetta er mjög mikilvægt. Það er eitt af þeim málum sem rædd eru á þinginu nánast árlega, þ.e. hvernig bæta og jafna megi hag íbúanna í landinu þegar ljóst er að um ákveðið og gífurlegt ójafnrétti er að ræða.

Hér er lagt til að setja á laggirnar nefnd er móti tillögur. Það er góð ráðstöfun að reyna að setjast yfir málið og koma fram með heildarsýn á hvernig við getum fundið lausn á þessu ójafnrétti.

Það eru miklar tölur sem um er að ræða. Það munar miklu á þeim sem búa við ódýra hitaveituna og þeim sem búa á köldum svæðum. Þar af leiðandi er töluverður munur á lífskjörum þar sem meiri hluti ráðstöfunartekna fer í húshitun. Það kemur niður á annarri neyslu eða eyðslu, ef það má orða það þannig.

Ég vil í því sambandi nefna eina hugmynd sem verið hefur að gerjast hjá mér og fleirum, það er að kanna kosti þess að á fót verði settur jöfnunarsjóður raforku er hafi það hlutverk að jafna að fullu þann mismun sem er á milli heimila og milli þeirra sem þurfa að hita hús sín með dýrari hætti en aðrir. Ef um það yrði flutt mál yrði því væntanlega vísað til þeirrar nefndar sem hér var fjallað um. Í þennan sjóð gætu runnið fjármunir sem væru hlutfall af hagnaði af orkuframleiðslu fyrirtækjanna. Þeir sem framleiða orkuna og selja hana yrðu látnir setja hluta af hagnaði sínum í þennan sjóð. Þetta er fyrst og fremst hugmynd sem ég kasta hér fram og hún er að sjálfsögðu órædd og óútfærð, svo ég haldi því algjörlega til haga.

Það er mikilvægt að reyna að átta sig á stærðunum í þessu. Því hefur verið send fyrirspurn til iðnaðarráðuneytisins sem unnið er að því að svara, þ.e. hversu há sú upphæð er sem þarf til að jafna húshitunarkostnað. Heyrst hafa tölur frá einum og hálfum til tveggja milljarða kr. sem það gæti verið á ársgrundvelli. Við þurfum að fá botn í það til þess að átta okkur á myndinni. Þær upplýsingar mundu væntanlega nýtast þeirri nefnd sem hér er fjallað um.

Herra forseti. Þetta er mjög gott og mikilvægt mál og ég vona svo sannarlega að við í iðnaðarnefnd munum afgreiða það með jákvæðum hætti, enda ætti að vera mikill einhugur um mál sem þetta sem lýtur að því að jafna rétt þegnanna í landinu.