139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

virðisaukaskattur.

451. mál
[15:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en get tekið heils hugar undir hvert einasta orð sem flutningsmaður þess, Mörður Árnason þingmaður, sagði í sinni ágætu ræðu. Ég fagna þessu frumvarpi og er reyndar meðal flutningsmanna. Við lifum á spennandi tímum þar sem ótrúleg lífsgæði eru að verða rafræn. Það er svoleiðis með mig að ég er mikill tónlistarunnandi og mikill lesandi og hef lengi keypt mikið bæði af bókum og tónlist. Nú er það svo að heima hjá mér eru að minnsta kosti tvö herbergi undirlögð af bókum, en það eru mörg ár síðan ég hætti að kaupa tónlist á geisladiskum. Tónlistin á heimilinu sem hefur verið keypt í tónlistarverslunum, á netinu í seinni tíð, er bara í tölvum heimilisfólks og tónhlöðum og öðrum búnaði til að spila tónlistina. Mig dreymir um þann dag þegar við getum fengið íslenskar bækur á stafrænu formi og lesið þær í litlum flottum græjum uppi í rúmi eða annars staðar. Ég hugsa að fátt fari betur með bak námsmanna en þessi bylting þegar og ef hún verður. Ég hugsa að hún verði, þetta er spurning um tíma. Við eigum virkilega að leggjast á eitt um að flýta þessari byltingu sem er fyrirsjáanleg og íslenskir útgefendur eiga að taka henni fagnandi.