139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:34]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Mál þetta er orðið nokkuð aldrað hér ef litið er til þingskjalanúmera og hvenær málið var lagt fram. Þannig háttar til að mál þetta er með lægsta skjalnúmeri sem þingflokkur framsóknarmanna er á. Ástæðan fyrir því að mál þetta er lagt fram í upphafi er vel skýrð í tillögunni sjálfri og þarf í sjálfu sér ekki að hafa sérstaklega mörg orð um það.

Í kjölfar efnahagshrunsins fóru af stað, eðlilega vil ég meina, miklar umræður og vangaveltur í samfélaginu sem enduðu með mótmælum. Við þekkjum þá sögu. Í framhaldinu hefur verið ráðist í það að Alþingi fór í mikinn rannsóknarleiðangur og úr varð að einn ráðherra, fyrrverandi forsætisráðherra, er nú fyrir landsdómi. Eftir er að rannsaka ýmislegt sem viðkom efnahagshruninu og eftirleiknum. Vil ég nefna mál sem fluttar hafa verið tillögur um, t.d. Icesave-framkvæmdin öll. Lagt er til að það mál verði rannsakað ofan í kjölinn sem er afar mikilvægt að gera. Einnig hefur verið rætt um rannsókn á falli sparisjóðanna o.fl.

Tillagan sem hér er flutt átti sér töluvert langan aðdraganda og mikinn undirbúning. 1. flutningsmaður, sá er hér stendur, velti hlutunum mikið fyrir sér og ræddi við ýmsa aðila um hvernig að þessu skyldi staðið. Niðurstaðan varð að fara þessa leið.

Svo ég fari í gegnum ályktunina stendur hér að þetta sé tillaga til þingsályktunar um rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009. Flutningsmenn eru Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem rannsaki hvort athafnir einstakra þingmanna á tímabilinu frá október 2008 til febrúar 2009, í tengslum við svokallaða búsáhaldabyltingu, hafi brotið í bága við ákvæði laga og eftir atvikum leggja mat á hvort þeir hafi bakað sér refsiábyrgð. Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum á sviði sakamálaréttarfars, refsiréttar og stjórnskipunarréttar.

Rannsóknarnefndin leggi mat á hvort einstakir alþingismenn hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar, gerst sekir um mistök eða vanrækslu í starfi eða brotið gegn refsiákvæðum laga. Skal nefndin gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum og gera jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu til Alþingis.

Rannsóknarnefndin fái í hendur allar þær rannsóknarheimildir sem henni eru nauðsynlegar til þess að geta varpað skýru ljósi á rannsóknarefnið. Skulu slíkar heimildir útfærðar í sérstöku frumvarpi til laga sem leggja skal fyrir Alþingi til samþykktar. Skal nefndin meðal annars hafa aðgang að öllum gögnum stjórnvalda, þar með talið fundargerðum, minnisblöðum og greinargerðum, sem varpað geta ljósi á rannsóknarefnið. Jafnframt skuli sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, skylt að verða við kröfum nefndarinnar um að láta henni í té upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, skrár, fundargerðir, minnispunkta af fundum, minnisblöð, bókanir, rafrænar upptökur, skýrslur lögreglu og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar. Nefndinni verði heimilt að kalla einstaklinga til fundar við sig til að afla munnlegra upplýsinga í þágu rannsóknarinnar og skuli viðkomandi þá skylt að mæta til skýrslutöku hjá nefndinni. Skylt verði að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að veita upplýsingar þótt þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um innanríkismál, utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildi um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki. Nefndinni skuli vera heimilt að framkvæma skýrslutökur fyrir opnum tjöldum telji hún tilefni til. Stjórnvöld skuli veita nefndinni alla nauðsynlega aðstoð sem hún óskar eftir við störf sín, og skuli nefndin, ef hún þess óskar, fá aðgang að gögnum og skýrslum sem sérfróðir aðilar á vegum stjórnvalda hafa unnið um málefni sem falla undir starf nefndarinnar. Að öðru leyti skulu rannsóknarheimildir nefndarinnar vera hinar sömu og rannsóknarnefndar Alþingis sem skipuð var á grundvelli laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Nefndin skili Alþingi skýrslu um rannsóknina eigi síðar en 1. apríl 2011 …“ — Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu þarf viðkomandi nefnd að taka tillit til þess að sú dagsetning er liðin — „… og verði skýrslan þegar í stað gerð opinber. Skýrslan verði tekin til umfjöllunar á Alþingi og henni vísað til fastanefndar sem leggi fram tillögur um viðbrögð þingsins við henni.

Kostnaður vegna starfa rannsóknarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð:

„Í janúar 2009 áttu sér stað mótmæli gegn sitjandi ríkisstjórn, öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde, þar sem fólk sló takt með pottum, pönnum og sleifum, svokölluð búsáhaldabylting. Fullyrða má að nokkur tengsl hafi verið á milli þeirra efnahagslegu áfalla sem dundu yfir þjóðina á haustmánuðum ársins 2008 og þeirra mótmæla sem hér er fjallað um. (MÁ: Ég held að það sé alveg víst.) Náðu mótmælin hápunkti sínum 20.–22. janúar 2009. (ÁI: Þá var ekki þingmaðurinn …) Í stuttu máli sagt lauk téðum mótmælum í kjölfar þess að ríkisstjórn Geirs H. Haarde fór frá völdum. Hafði annað ráðuneyti Geirs H. Haarde þá starfað frá 24. maí 2007 til 1. febrúar 2009.

Mörgum eru í fersku minni myndir og myndbrot af lögreglumönnum sem stóðu andspænis hundruðum mótmælenda. Flestir mótmælenda stóðu friðsamlega að sínum mótmælum en ákveðinn hópur þeirra beitti öðrum meðölum, t.d. því að kasta hlutum í lögreglu, í Alþingishúsið, Stjórnarráðið og lögreglustöðina við Hverfisgötu, svo eitthvað sé nefnt. Nokkrir mótmælendur (Gripið fram í.) reyndu að komast inn í Alþingishúsið en lögregla og þingverðir vörnuðu þeim inngöngu. Þá gerðu mótmælendur hættulega tilraun til að brjóta sér leið inn í lögreglustöðina við Hverfisgötu í þeim tilgangi að frelsa einstakling sem hafði verið handtekinn. Breyting varð á mótmælunum er mótmælendur söfnuðust saman við Stjórnarráðið í Lækjargötu. Lögregla varnaði inngöngu og varði húsið. Eftir að grjóti og hellusteinum hafði um nokkra hríð rignt yfir lögreglu gengu friðsamir mótmælendur fram fyrir skjöldu, mynduðu varnarmúr og vörðu lögreglumenn grjótkasti. Linnti mótmælunum fljótlega af þeim sökum. Ekki verður annað séð en að mjög alvarlegt ástand hafi skapast og nokkur fjöldi lögreglumanna hafi lagt sig í verulega hættu við að sinna skyldustörfum sínum.

Því hefur verið haldið fram að þingmenn hafi tekið þátt í mótmælum þessum ýmist með beinum eða óbeinum hætti. Hinn 8. desember 2009 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Gylfa Guðjónsson, fyrrverandi lögreglumann og ökukennara, sem ber heitið „Lögregla í herkví“. Þar segir meðal annars: „Enn merkilegra er að bæði núverandi heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra munu hafa haft það við að veifa til þessa hóps út um glugga þinghússins og utan dyra að hvetja fólk þetta til dáða í stórhættulegum athöfnum og afbrotum. Margir lögreglumenn gengu frá þeim leik slasaðir og niðurbrotnir.“ Í viðtali við Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna, í Morgunblaðinu 9. desember 2009 er rætt um þessa atburði. Þar lýsir Snorri meðal annars háttsemi ákveðins þingmanns með eftirfarandi orðum: „Í stað þess að fylgja tilmælum til þingmanna og starfsfólks Alþingis um að halda sig frá gluggum hússins hafi hún staðið úti við glugga og talað í síma „og sent kveðju með því að kreppa hnefann út í fjöldann“.“ Snorri ritaði forseta Alþingis bréf, dags. 22. desember 2009, þar sem hann, fyrir hönd Landssambands lögreglumanna, vísar til framangreindra atburða og spyr forseta „hver sé í raun ábyrgð þeirra [stjórnmálamanna] sem í hlut eiga“ og „hvernig Alþingi ætli sér að afgreiða þetta mál allt saman“. Kemur eftirfarandi staðhæfing meðal annars fram í téðu bréfi Snorra: „[V]irðist hafa verið fjallað um mál þetta á fundi forsætisnefndar Alþingis, sem haldinn var 22. janúar 2009. Í fundargerðinni er vitnað í Kjartan Ólafsson, fyrrverandi alþingismann, en þar er haft eftir honum að hann hafi orðið vitni að því meinta hátterni þingmannsins, sem gert hefur verið að umtalsefni í fjölmiðlum sem og í ræðustól Alþingis. […] Í fundargerðinni er reyndar einnig vitnað til orða núverandi forseta Alþingis, með eftirfarandi hætti: „ÁRJ sagði að margir hefðu nefnt svipað í sín eyru.“ Framangreindu bréfi Snorra svaraði forseti Alþingis ekki fyrr en eftir að formaður Landssambands lögreglumanna hafði ítrekað spurningar sínar með bréfi dags. 25. febrúar 2010. Virðist forseti telja að það sé ekki hennar eða forsætisnefndar Alþingis að bregðast við og hlutast til um rannsókn framangreindra atburða heldur hljóti slíkt að vera í verkahring viðeigandi stjórnvalda, lögreglu og ríkissaksóknara. Upplýsir forseti að hún muni ekki leggja fram tillögu í forsætisnefnd um hvernig málið verði afgreitt. Þá tekur forseti fram að komi slík tillaga fram á Alþingi verði hún tekin á dagskrá samkvæmt þeim reglum sem gilda um meðferð slíkra tillagna. Þess ber að geta að samkvæmt bókunum sem virðast hafa verið gerðar í fundargerð forsætisnefndar Alþingis 22. janúar 2009 var á þeim fundi rætt um framgöngu tveggja þingmanna í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um búsáhaldabyltinguna. Kemur þar efnislega fram að annar þingmaðurinn virðist hafa látið fjölmiðla vita af möguleikum þingmanna og starfsmanna Alþingis til að komast óséðir á milli húsa, og þannig mögulega sett þá og húsakost Alþingis í hættu. Þá kemur eftirfarandi fram: „Þá greindi [A] frá því að hann hefði orðið vitni að því að [B] alþingismaður hefði verið í sambandi við fólk utan hússins og virst vera að veita þeim upplýsingar um viðbúnað lögreglu.“

Vart verður hjá því komist að draga þær ályktanir af framangreindu að stórkostleg hætta hafi skapast í búsáhaldabyltingunni og að ákveðnir alþingismenn hafi veitt liðsinni sitt eða hvatt aðra til verka sem sköpuðu mikla hættu. Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að varpað verði ljósi á framangreinda atburði sem lið í því að skapa á ný traust á Alþingi og stjórnvöldum. Fara verður yfir hvort þingmenn og ráðherrar hafi farið út fyrir það sem talist getur réttur þeirra til að tjá sig og um leið hvort tilefni sé til að bregðast við framgöngu þessara aðila. Af þeim sökum er lagt til að skipuð verði rannsóknarnefnd sem rannsaki og skrifi skýrslu um málið og sú skýrsla verði í framhaldinu lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og úrvinnslu. Verði talið að þingmenn eða ráðherrar hafi gerst brotlegir við lög hljóta Alþingi, kjósendur og viðeigandi stjórnvöld að bregðast við því með þeim hætti sem eðlilegur þykir.

Lagt er til að Alþingi hlutist til um að skipa sérstaka rannsóknarnefnd sem í eigi sæti sérfræðingar á sviði sakamálaréttarfars, refsiréttar og stjórnskipunarréttar. Þá er lagt til að Alþingi tryggi, með framlagningu frumvarps til laga, að téð rannsóknarnefnd hafi allar þær heimildir til rannsóknar sem henni kunna að teljast nauðsynlegar. Eru í tillögunni nefndar ákveðnar heimildir en að öðru leyti skal litið til heimilda rannsóknarnefndar Alþingis sem skipuð var á grundvelli laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þar sem mögulega kann að vera um að ræða athafnir sem varðað geta reglur laga um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, verður að telja eðlilegt að rannsókn þessi fari fram á vettvangi sérnefndar skipaðrar af Alþingi. Verður þó vart hjá því komist að gera ráð fyrir að rannsóknarnefndin vísi þeim málum til lögreglu eða annars ákæruvalds sem þar eiga heima.“

Virðulegi forseti. Ég held að þessi tillaga skýri sig að nokkru sjálf. Það er mat að minnsta kosti þess sem hér stendur og er 1. flutningsmaður að þessari tillögu að það sé mjög mikilvægt að Alþingi komi trúverðuglega fram út á við, að Alþingi njóti trausts og trúnaðar stofnana samfélagsins, þar á meðal lögreglu, að Alþingi sé óhrætt við að líta í eigin barm og skoða það sem betur má fara hjá Alþingi og alþingismönnum. Er þetta liður í því. Þessi tillaga er líka liður í því að gera upp við þá atburði sem áttu sér stað haustið 2008 og veturinn 2009. Einhverjum kann að finnast þetta minna mál en öðrum en það er að minnsta kosti ljóst að hér verður ekki sú sátt sem margir tala um í þessum ræðustól að þurfi að verða fyrr en þetta mál hefur hlotið þá meðferð sem það á skilið í nefndum Alþingis. Það er svo vitanlega þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar að ákveða hvað verður um það.

Ég lýk máli mínu með því að leggja til að málinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar.