139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:48]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er enn að reyna að skilja af lestri og áheyrn þessa þingmáls og áherslu ræðunnar áðan um hvaða mál er að ræða áður en ég tek afstöðu til þess hvort það er minni háttar eða meiri háttar. Þetta er þingmál um að sérstök rannsóknarnefnd rannsaki og skrifi skýrslu um málið. Ég skil ekki enn þá um hvaða mál er að ræða.

Þær sakir sem hér eru bornar á að vísu nafnlaust fólk, sem óljóst er hvert er, virðast vera tvenns konar, annars vegar að einhver þingmaður hafi staðið út í glugga og kreppt hnefann og hins vegar er vitnað í fundargerð um að einhver A hafi talið að alþingismaður B hafi verið í sambandi við fólk utan húss og sá hafi lagt fram ákveðna túlkun um þau samskipti.

Í þessu andsvari, af því að þetta verður löng umræða, er kannski nóg að spyrja hv. flutningsmann: Byggja flutningsmennirnir málið á tiltekinni fundargerð? Hvaða fundargerð er það? Liggur hún frammi? Er hún aðgengileg öllum?

Önnur spurning í þessu sambandi: Af hverju eru ekki nefnd nöfn í skýrslunni? Talað er um tiltekinn þingmann og í fundargerðinni er sagt að einhver A hafi sagt eitthvað um mann B. Af hverju hafa hv. þingmennirnir þrír sem flytja málið ekki hugrekki til að nefna þau nöfn sem hér um ræðir?

Í þriðja lagi er talað um að þetta kunni að varða við reglur laga um ráðherraábyrgð. Á því tímabili sem hér virðist vera um að ræða sátu tólf ráðherrar. Hver þeirra telja þingmennirnir að hafi brotið lög með einhverjum hætti sem að vísu er enn óljós?