139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson flutti mikla ræðu í gær úr þessum stól og var þar tíðrætt um sátt og endurtók hluta af henni áðan. Mig langar til að vitna til orða hans, með leyfi forseta:

„Virðulegi forseti. Mig langar að ræða örlítið skoðanir mínar á umræðunni í fjölmiðlum undanfarið um hvernig hv. þingmenn tala hver til annars og um hver annan í fjölmiðlum og jafnvel í þinghúsinu. Ástæðan er held ég öllum kunn. Mjög þung orð hafa fallið nýlega í garð þingmanns og þingmanna og í rauninni finnst mér það setja þingið mikið niður.“

Síðan hélt hann tárvotur ræðu um mikilvægi þess að allir væru góðir við alla, allir töluðu hlýlega til allra og hélt síðan áfram, með leyfi forseta:

„Ég vil hvetja virðulegan forseta til að beita þeim ráðum sem hann hefur til að taka á málum sem þessum en vitanlega nær lögsaga forseta lítið út fyrir veggi þingsalarins. Því þurfa forustumenn flokkanna að grípa inn í og til þess vil ég hvetja.“

Nú vill svo til að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann flytur hér mál þar sem hann fer með dylgjur, rógburð og illmælgi um þingmenn án þess að hafa kjark eða þor til að nefna þá á nafn. Ekki í eitt einasta skipti í allri þingsályktunartillögunni er þingmaður nefndur á nafn en gefið í skyn hver hann gæti hugsanlega verið. Það er rógburður, kjaftagangur, vitnað er í greinaskrif í Morgunblaðinu af öllum blöðum o.s.frv. Á því byggir hv. þingmaður og meðflutningsmenn hans sem voru nota bene ekki á þingi þegar þessi atburður átti sér stað — enginn þeirra — og upplifðu ekki það umrót sem þeir lýsa þó hér.

Þess vegna vil ég spyrja þingmanninn: Til hvaða ráða greip hann í samræmi við orð hans í gær til að reyna að koma í veg fyrir að hann flytti þetta mál í dag? Var það rætt á þingflokksfundi Framsóknarflokksins? Var leitað til forseta þingsins um að reyna að koma í veg fyrir það að þingmaðurinn (Forseti hringir.) stæði hér í dag og flytti þetta mál? Til hvaða ráða greip hv. þingmaður? Finnst honum þetta þingmál falla vel að þeim orðum sem hann sjálfur flutti í gær?