139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja, varðandi niðrandi orð þingmannsins um þá er skrifuðu greinar í Morgunblaðið um þetta en það voru m.a. lögreglumenn á vettvangi. Ég held að hv. þingmaður ætti kannski að tala við það ágæta fólk um orð þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvar í þessari tillögu eru dylgjur, rógburður og illmælgi í garð einstakra þingmanna? (Gripið fram í: Ónafngreindra.) Ég bara spyr. Tillagan gengur út á að fara yfir og rannsaka hvort þingmenn hafi farið út fyrir og brotið þær reglur sem þeir starfa eftir. Ég veit að hv. þingmenn sem eru í salnum hafa margir hverjir mikinn áhuga á að rannsaka ýmsa hluti. Hví ekki þetta? Hvað er að því að skoða þetta? Hvað er að því að skoða hvort þingmenn hafi stofnað lífi lögreglunnar í hættu? Er það ekki sjálfsagt mál? Skuldum við lögreglunni það ekki fyrir að hafa staðið vaktina og varið þingmenn sem þá voru á þingi?

Það er alveg rétt að ég var ekki á þingi á þeim tíma. Ef ég man rétt var hv. þingmaður ekki þar heldur. Er þá ekki ástæða fyrir okkur að komast að því hvað gekk á?