139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get látið hv. þingmann hafa hér blað með samantekt um lög og reglur sem um þetta geta gilt.

Varðandi orð hv. þingmanns um að einhver hún hafi staðið við gluggann, er þar, eins og þingmaðurinn kemst að ef hann les greinargerðina, verið að vitna til fundargerðar eða til skrifa lögreglu og slíkt, þetta eru ekki orð undirritaðs. (Gripið fram í.) Ég hvet hv. þingmann til að lesa það.

Síðan vil ég segja varðandi hugrekki að ég mun örugglega og get lofað hv. þingmanni því að ef þetta þingmál er byggt á misskilningi eða eitthvað er þar sagt sem kemur í ljós að hafi ekki átt sér stað mun ég biðjast afsökunar á því. (Gripið fram í: Núúú.) Mér finnst hins vegar ekki mikið hugrekki þegar menn þora ekki að biðjast afsökunar (Gripið fram í.) á orðum sínum. (Gripið fram í: Fullseint, hv. þingmaður.) Ef í ljós kemur að rannsókn lokinni að sá er hér stendur hafi gert eitthvað sem kallar á afsökunarbeiðni mun hún að sjálfsögðu koma fram. (Gripið fram í.)

Ég hygg að hv. þingmenn þurfi að skýra af hverju þeir eru svona hræddir við að láta þetta mál fram ganga. Hvað er að þeim þingmönnum? (Forseti hringir.) Af hverju má ekki rannsaka þetta eins og annað sem verið er að skoða á Íslandi í dag?