139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

rannsókn á athöfnum þingmanna í tengslum við búsáhaldabyltinguna í janúar 2009.

209. mál
[15:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það kom fram í máli 1. flutningsmanns þingsályktunartillögunnar, Gunnars Braga Sveinssonar, að tillagan skýrði sig sjálf. Ég er ósammála því, mér finnst hún ekki skýra sig sjálf. Á Íslandi erum við svo heppin að við virðum tjáningarfrelsið eða höfum gert það hingað til. Tjáningarfrelsi er grunnmannréttindi, þar með talinn réttur fólks til að mótmæla og tjá skoðanir sínar. Með því að taka að sér þingmennsku eða ganga í það hlutverk afsalar maður sér ekki tjáningarfrelsinu né frelsinu til að mótmæla eða hafa skoðanir.

Ég var ekki inni í þessu húsi 20.–22. janúar en ég stóð hér fyrir utan. Það var ekki auðvelt. Það var mjög erfitt að standa hér og garga á þjóðþing sitt og geta ekki annað. Ég braut engin lög með athæfi mínu, hvorki þá né síðar. Mótmæli hafa ekki hætt. Þau eru enn daglegt brauð. Ég hef talað við mótmælendur fyrir utan margoft og þegar ég geng ganginn hér á milli með glerveggnum veifa ég þeim.